Börn eru alltaf að flýta sér að fullorðnast og það er í eðli þeirra að vera forvitin um það sem er bannað og “fullorðins“.
Það er hinsvegar á valdi okkar foreldranna að hlúa að sakleysi þeirra og vernda þau fyrir því sem þau hafa ekki þroska til að skilja.
Sem foreldri finnst mér mjög erfitt að halda uppi reglum, sérstaklega ef ég er strangari en foreldrar annarra. Ég reyni þó að standa á mínu og hef ófá skiptin verið „vonda mamman“ fyrir að banna börnum mínum að spila í bannaða tölvuleiki, horfa á bannaðar myndir eða vera úti lengur, því mér er sagt að allir aðrir megi það.
En þó það sé mín skoðun að vernda eigi sakleysi barna þá finnst mér við Íslendingar heldur kærulausir að mörgu leiti. Mér blöskrar kæruleysi foreldra varðandi athafnir barnanna á netinu, hvaða myndir þau horfa á, hvar þau eru og hvenær þau koma heim o.s.frv. Að mínu mati gerum við þeim ekkert gott með að halda ekki uppi reglum og aga.
Mér blöskrar líka hversu snemma stelpur byrja að hegða sér eins og konur og ekki þykir tiltökumál að 12 ára stelpur máli sig og dansi eins og “stripparar” sem þær sjá í tónlistarmyndböndum í sjónvarpinu. Mér finnst ekki eðlilegt að stúlkur undir fermingaraldri klæði sig í flegna kjóla, brjóstahaldara með púðum, raki af sér líkamshár og farði sig. Mér finnst ekki eðlilegt að það sé orðið algengur partur af fermingarundirbúningi að fara í strípur, ljós/brúnkusprey, fá gervineglur og fara í förðun. Við erum að tala um stelpur á 14 aldursári. Það sem mér finnst svo enn verra að börn niður í 11-12 ára eru komin í þennan gír.
Ég er ekki gömul en engin í mínum vinahóp eignaðist brjóstahald fyrir fermingu -sama hversu bráðþroska sumar voru líkamlega þá þótti það ekki við hæfi. Maður var í íþróttatopp og þótti það flott. Engin af okkur málaði sig nema þá í “skvísuleik“ heima hjá sér eða fyrir grímuböll. Engin af okkur stundaði kynlíf fyrr en við byrjuðum í menntaskóla og það var ekki vegna þess að tækifærin gáfust ekki heldur vegna þess að við höfðum ekki áhuga. Við vorum börn og við nutum þess að vera það.
Þetta vil ég börnunum mínum, ég vil ekki þrýsta á þau að fullorðnast, ég vil ekki eiga þátt í því að spilla sakleysi þeirra, nóg er nú erfitt í nútíma-þjóðfélagi að vernda þau.
Ef til vill finnst fólki ég vera skjóta mig í kaf, margir hafa einhverja fyrirfram ákveðna hugmynd um hvernig „pjattrófa“ er og hvernig hún hugsar en ég get alveg sagt ykkur það að þó ég hafi áhuga á tísku og útliti þá myndi ég aldrei fara hvetja börn til að farða sig og klæða sig eins og konur. Ég vil leyfa börnum að vera börn.
Allar konur geta farðað sig, snyrt og klætt sig eins og þær vilja en mér finnst ekki eðlilegt að hægt sé að kaupa hælaskó, G-strengi, push-up brjóstahaldara og fatnað með grófum áletrunum fyrir börn.
Kannski finnst sumum ég gamaldags og forpokuð en af eigin reynslu þá veit ég að þegar maður missir „sakleysið” eru hlutirnir mjög fljótir að gerast eftir það og ég tel að það sé mun betra að njóta æsku sinnar heldur en að flýta sér að fullorðnast.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.