Nýverið var ég með einkakennslu, sem væri ekki frásögu færandi nema í þetta sinn var það karlmaður að fá smá leiðbeiningar.
Mér finnst svo gaman þegar karlkynið sýnir áhuga á að kunna að nota snyrtivörur!
Ég hef ekki skilið afhverju svo margir vilja alltaf skipta mannkyninu í hópa og flokka; Við erum mannverur, ótrúlega fjölbreyttar og margbreytilegar sem er æðislegt. Ég vil frekar að við njótum þess að vera til og vera við sjálf, frekar en að láta utanaðkomandi áhrif móta okkar hugsanir um hver megi nota hvað útfrá því af hvaða kyni við erum.
Oft sjáum við greinar eða þekkjum til þegar karlmenn eru að stelast í fínu kremin og hreinsivörurnar hjá mökum sínum.
Nýlega fór ég svo að sjá greinar um aukna notkun á förðunarvörum hjá karlmönnum í öðrum löndum. Þetta finnst mér jákvætt.
Það er t.d. gott að kunna að nota hyljara, jafnvel BB krem eða litað dagkrem, sem er ekki jafn þekjandi en jafnar húðina. Púður er vinsælt en ef húðin er þurr þá mun það ýkja þurrkinn. Góðar hreinsivörur og húðkrem skipta líka máli, viljum við ekki öll meiri vellíðan í eigin skinni?
Nú er ég alls ekki að mæla með að allir karlmenn fari út í að “mastera guyliner”. Allt andlitið farðað og litagleði og sansering eins og “back in the 80’s”. Nema auðvitað þá langi að fara þessa leið, sem væri þá frábært fyrir þá sem vilja.
Þó að ég vinni með förðunarvörur og sé alltaf að skoða og prófa meira þá er ég mjög hlynnt því að minna er meira. Við lítum yfirleitt betur út því nátturúlegri sem við erum.
Stundum þurfum við smá hjálp til þess að ná fram þessu nátturúlega útliti og frískleika. Margt getur spilað þar inní, aukið álag, lítill svefn, stress getur líka orsakað bólur, roða og þurrkubletti.
Veðurbreytingar rugla oft aðeins í húðinni og við finnum þá fyrir auknum þurrki eða aukinni fitumyndun og af hverju ættu karlmenn þá ekki að fela þreytu ummerki, fela roða, hylja bólu/r og hugsa aðeins um húðina ?
Góð húðumhirða skiptir okkur öllum máli óháð kyni og okkur líður öllum betur þegar við lítum vel út ekki satt?
Katla lærði tísku og ljósmyndaförðun hjá Línu Rut haustið 1994. Hún hefur mikinn áhuga á öllu sem tengist förðun, húð, tísku,útliti og hönnun. Katla hefur einnig sótt ljósmyndanámskeið, lært fatahönnun og saum og lokið einkaþjálfaranámi.
.