Hvað er það sem gerir sumar konur mikið unglegri en aðrar? Hvers vegna ekki við allar?
Svarið við þessu er þrefalt og þá gildir einu hvort um gen eða aðgerðir er að ræða. Það er þrennt sem kemur saman og myndar þetta “unglega” útlit á bæði konum og körlum en þetta eru:
Húðin
Hárið
Tennurnar
…eða HHT eins og við köllum það. Ekki í neinni sérstakri röð, allt jafn mikilvægt og ekkert getur án hins verið því slitið hár truflar eiginlega fallegar tennur og svo framvegis.
Kynþokkafyllsta grænmetisæta heims yfir sjötugu
Ég byrjaði fyrst að spá í þessu þegar ég las viðtal við grænmetisætuna Mimi Kirk. Mimi þessi var valin “Kynþokkafyllsta grænmetisætan yfir sjötugt” (frekar flippaður titill) en þegar þú sérð mynd af Mimi þá skilurðu vel hvers vegna því konan er alveg hreint óhemju glæsileg miðað við aldurinn.
Og það sem einkennir Mimi helst er að þetta þrennt er allt svo fínt hjá henni. Hún er með fallegt, sítt hár, fallegar hvítar tennur og breitt bros og húðin hennar er hrein, hrukkulaus og með jafnri litaáferð – og já, hún er að verða áttræð á næsta stórafmæli! Fædd 1938.
Öfugt við margar aðrar sýnist mér hún lítið sem ekkert hafa gert til að láta þétta eða strekkja húðina með aðstoð skurðaðgerða en þetta sést m.a. á augunum hennar (teygjanleikinn farin í efri auglokum og hálsinn) en hinsvegar hefur hún greinilega hugsað þannig um tennurnar sínar að þær eru eins og í talsvert yngri konu.
Þetta hefur hún líklegast gert með svokölluðum postulíns skinnum.
En hvernig fer hún að þessu? Hvað gera hún og allar þessar sem eru glæsilegar árum saman án þess að fara í skurðaðgerðir og botox?
Auðvitað er það fyrst og síðast lífsstíllinn. Heilbrigt og fjölbreytt mataræði með fullt af ávöxtum og grænmeti, hófsemi í áfengisneyslu (eða sleppa því alveg), engar reykingar, regluleg hreyfing og engin markviss sólböð eru nokkrir lyklar en svo er það líka dagleg umhirða hárs, húðar og tanna.
Húðin þarf sína ríkulegu skammta af raka og næringu, hárið líka, muna að taka inn réttar olíur, borða fjölbreytt og drekka vatn á hverjum degi. Nokkur glös. Og tennurnar þarf að passa vel; forðast sykur, kaffi, rauðvín og reykingar í óhófi. Svefninn og nóg af honum er líka algjört grundvallaratriði jafnaðargeðs og góðs útlits en þetta vill því miður oft gleymast.
Ekkert af þessu má þó vera til þess að skerða hamingjuna í lífi viðkomandi því það er sama hversu “fallegt” fólk er, við heillumst aldrei af fýlupúkum og nokkrar hrukkur til eða frá skipta litlu ef sjarminn og lífsgleðin er því meiri.
Félagsleg áhrif Karíusar og Baktusar
Ef ég ætlaði sjálf að taka mig í yfirhalningu og þyrfti að forgangsraða á fegurðarlistann minn myndi ég segja að tennurnar væru númer 1. 2. og 3.
Það er fátt ef ekkert sem skiptir jafn miklu máli fyrir útlitið og fallegar, beinar tennur.
Þetta sést m.a. vel á þessu myndasafni hérna af þekktu fólki fyrir og eftir tannviðgerðir. Það er eitthvað sálrænt við þau áhrif sem slæmar tennur hafa á okkur. Margir eiga bágt með að treysta vel fólki með brotnar eða brúnar tennur. Það er bara eitthvað…
Ef tennurnar eru ekki í lagi nýtur önnur útlitsfegurð sín ekki eins vel. Kannski er það þessvegna sem foreldrar skikka unglingana sína í tannréttingar hvort sem nauðsyn kallar eða ekki?
Að sama skapi verða konur sem vilja halda unglegu útliti að forðast að mála sig allt of mikið. Á kennsludisk Karls Berndsen um förðun eldri kvenna er lögð áhersla á að nota mildari tóna en hjá yngri konum; beige, ljósbrúna og létta liti sem undirstrika ekki línur og hrukkur í húðinni.
Það sama má segja um hárið en eftir því sem aldurinn færist yfir hefur mörgum þótt klæðilegra að lýsa hár sitt. Dökki liturinn kallar einhvernveginn frekar á að “hrukkur” verði meira áberandi meðan mildari tónar í hári gera það minna sýnilegt.
Þá fer flestum betur að halda mjúkum línum í hárinu (ekki strípur og tjásur) og fæstar konur bera stutt hár mjög vel nema þær séu grannar í vexti. Ef hárið er ekki of þunnt er yfirleitt mikið fallegra að hafa það þá amk í hálfsídd ef holdafarið er meira og athugaðu að kynna þér úrvalið af mótunarvörum fyrir hárið því það hafa miklar framfarið orðið í þessu á liðnum hárum og í raun allt hægt! Eða eins og Helena Rubinsten sagði: Það eru ekki til ljótar konur, bara latar.
Hvað húðina varðar er ekkert sem skiptir meira máli en að þrífa hana vel kvölds og morgna og forðast sykurát, sólböð og reykingar. Ef þú nýtur þess bara of mikið að liggja með bók og bossanova í sólbaði skaltu alltaf passa að bera sterkar sólarvarnir á bringu og andlit, þú sérð ekki eftir því þegar komið er á fertugsaldur.
Krem eru eins misjöfn og þau eru mörg og ekkert sem segir að dýru, virku kremin séu betri fyrir þig en önnur einfaldari og ódýrari.
Margar náttúrulegar olíur eru líka mjög góðar fyrir húðina og þá er t.d. hægt að nefna möndluolíu, kókos og laxerolíu (lífræna). Hver og ein kemst smátt og smátt að því hvað virkar best fyrir hana og ekkert sem segir að töfrarnir séu bundir við háa upphæð á verðmiðanum eða undraverð loforð framleiðenda. Bara það sem virkar best fyrir hvern og einn, hvort sem það kostar mikið eða ekki.
Til að fræðast meira eru hér nokkar skemmtilegar greinar, svo er bara að vaða í þetta verkefni að gera sig sætari og halda áfram að njóta lífsins, því eins og Tóta litla tindilfætt sagði – “Maður getur alltaf á sig blómum bætt”.
- Borðaðu rétt og haltu í æskuljómann
- “Semi vegetarian” matseðill Mimi Kirk
- Tannhvíttun á stofu
- Tannhvíttun heima
- Meikóver heima
- Flottar, sexý og komnar yfir fimmtugt
- 18 staðreyndir um svefn og svefnleysi
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.