Margir velta fyrir sér mikilvægi primera, eða farðagrunna, og hver tilgangurinn sé með notkun þeirra.
Líkt og kom fram í þessari úttekt á primerum sem birtist á Pjattinu í fyrra virkar primer nákvæmlega eins og grunnur sem borinn er á flöt áður en hann er málaður.
Þú getur verið með besta farða sem til er en ef húðin er ekki grunnuð rétt þá nærðu aldrei fram öllum þeim eiginleikum sem farðinn hefur upp á að bjóða.
Fyrsta skrefið í átt að fallegri förðun
Það má því segja að ef þú ætlar á annað borð að nota snyrtivörur þá er góður primer sem hentar þinni húð það fyrsta sem þú ættir að eignast. Þar að auki er hægt að nota primerinn stakann og sleppa allri förðun, húðin verður bæði flauelsslétt og ljómar fallega.
Hér eru nokkrir primerar sem ég hef átt og notað sjálf. Allir eru þeir stórgóðir en hver og einn þeirra er gæddur sínum eiginleikum. Sumir henta þurri húð best en aðrir gera meira fyrir blandaða eða feita húð.
Það er því mikilvægt að þekkja húðina þína vel svo primerinn virki sem best fyrir þig og veiti þér ljómandi fallega húð.
L’OREAL – Magic Lumi Primer
Líkt og nafnið gefur til kynna veitir Magic Lumi primerinn húðinni ljóma og heldur farðanum á sínum stað. Magic Lumi er til dæmis gott að nota ef húðin er þreytt og flöt, sérstaklega í köldu veðri. Hann hentar best á þurrari húðtýpum.
MAC – Prep + Prime
Primerinn frá MAC er með shimmeragnir í sér og því verður húðin töfrandi falleg. Hann þornar fljótt á húðinni sem er frábært ef tíminn er naumur. Þessi primer mattar líka húðina ef hún glansar lítillega og hentar hann því frábærlega fyrir þær með blandaða húð.
NIVEA – Express Hydration Primer
Nivea hefur sett á markað primer sem veitir húðinni mikinn raka og grunnar hana sérlega vel fyrir þær snyrtivörur sem á eftir fylgja. Hann heldur farðanum á sínum stað og er sérstaklega góður fyrir þær sem eru með þurra húð og berjast við þurrkublettina sem fylgja haustveðrinu. Express Hydration er þar að auki á góðu verði og það er alltaf mikill kostur.
SMASHBOX – Photo Finish Foundation Primer/ Light
Smashbox er líklegast þekktast fyrir primerana sína. Photo Finish primerinn er notaður af fagfólki í tísku- og snyrtivöru heiminum og er hann í uppáhaldi hjá mörgum stjörnum, m.a. hinni síungu Madonnu. Light-útgáfan af honum hefur reynst ótrúlega vel á blandaðri og feitri húð.
Yves Saint Laurent – Matte touch Primer
YSL Matte touch primerinn er ekki bara góður grunnur undir farðan heldur vblandast hann sérstaklega vel við farðann sjálfann. Svitaholur virðast minni og glansandi svæði haldast mött og því er óþarfi að púðra mikið samhliða. Frábær fyrir mjög feitar húðtýpur því hann dregur í sig olíuna.
Prófaðu þig áfram með einn af þessum flottu primerum, sjáðu hvernig farðinn endist mun lengur og verður fallegri á húðinni. Sérlega gott fyrir þær sem eru með erfiða húð!
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.