Þegar það er mjög kalt úti, eða snöggar breytingar á hitastiginu þá finnum við oft fyrir því í húðinni.
Algengast er að þorna, sum okkar fá roða og ertingu.
Sama hvað hrjáir okkur þá er það oft óþægilegt. Þá skiptir máli að breyta aðeins því sem við gerum og virkar þegar það er heitara og jafnara hitastig.
Fyrir mikið þurra húð er gott að nota fljótandi eða kremaðan farða. Púðurfarði situr meira ofan á húðinni og gerir þurru svæðin meira áberandi. Mörg okkar skipta um krem á veturna og notum aðeins feitari týpur. Ef það er ekki nóg til að farðinn renni fallega á, þá er hægt að setja örlítið af kreminu útí farðann.
Fyrir roða í húðinni þá eru til krem sem draga úr roðanum og einnig litaleiðréttingar krem sem hægt er að nota á undan eða útí farðann.
Fyrir okkur sem notum kinnaliti er þægilegra að nota krem kinnaliti í kuldanum.
Persónulega finnst mér það oft vera nátturulegra þegar við notum kremaða liti á kinnarnar, örlítið meiri ljómi og þetta er ekki svæði sem við þurfum að hafa áhyggjur af óþarfa glans á húðinni.
En ef við erum með blandaða eða feita húð og glönsum alltaf, sama hvað, á T svæðinu þá er fínt að nota mattandi gel eða krem á þau svæði sem við teljum okkur þurfa. Þessar vörur leyfa húðinni að virka náttúrulegri en þegar við púðrum burt allan glans.
Ef við viljum lit á varirnar þá er sniðugra að finna sér rakagefandi varalit frekar en gloss, sem geta þurrkað varirnar. Flest merki eru með nokkrar litaformúlur með mismikla þekju ásámt áferðum til að velja um. Með því að nota varalit þá endist líka liturinn lengur.
Svo megum við ekki gleyma að vera með hanska/vettlinga þegar við erum úti í kuldanum og vera duglegar að bera á okkur handáburð eða olíur, ekki gleyma nöglum og naglaböndum!
Gott er að næra hendurnar eftir handþvott og vel á kvöldin fyrir svefn. Stundum sef ég með bómullar hanska á mér, þá set ég fyrst á mig möndlu eða kókósolíu eða uppáhalds kremið mitt og vakna svo með silkimjúkar hendur.
Prófaðu að fylgja einhverjum þessara ráða og sjáðu hvort húðin þín verði ekki aðeins betri í kuldanum og skammdeginu.
Katla lærði tísku og ljósmyndaförðun hjá Línu Rut haustið 1994. Hún hefur mikinn áhuga á öllu sem tengist förðun, húð, tísku,útliti og hönnun. Katla hefur einnig sótt ljósmyndanámskeið, lært fatahönnun og saum og lokið einkaþjálfaranámi.
.