Augnlokin verða fyrr fyrir öldrunaráhrifum en aðrir hlutar húðarinnar enda bólgna þau þegar fólk sefur, svo byrja fljótlega að myndast hrukkur á augnlokum og í kringum augun þar sem húðin er þunn.
Um leið og teygjanleiki húðarinnar minnkar fara svo augnlokin að síga niður og stundum svo mikið að húðin liggur yfir hliðarnar á augnunum og byrgja okkur jafnvel sýn.
“Flestar konur, já eða svona tveir þriðju, sem koma hingað á snyrtistofuna og eru orðnar fertugar eða eldri eru búnar að fara í aðgerð á augnlokum,”
…sagði snyrtifræðingur nokkur sem Pjattið talaði við þegar við byrjuðum að forvitnast um þessar aðgerðir.
Fegrunaraðgerðir á augnlokum eru þær algengustu sem íslenskar konur (og karlar) fara í en þær eru bæði einfaldar og kosta ekki mikið um leið og þær gera mikið fyrir útlitið, og sjálfsmyndina í mörgum tilvikum, því fólk getur virst mun mæðulegra en það er í raun þegar augnlokin síga niður.
Karlmenn þekkja þetta líka enda er þetta algengasta fegrunaraðgerð íslenskra karlmanna og hefur verið í lengri tíma.
Stundum er gerð aðgerð á bæði efri og neðri augnlokum en flestir láta gera aðgerð á þeim efri. Við ræddum við Ágúst Birgisson lýtalækni en hjá honum kostar 110.000 krónur að fá aðgerð á efri augnlokum en aðgerð á neðri augnlokum kostar 130.000.
HVAÐ ER GERT?
Aðgerð á efri augnlokum er fólgin í því að augnlokið er einfaldlega stytt og saumað saman aftur. Þá er skorið sirka 6-7 mm. frá efri augnhárum og samsíða hrukkulínum þannig að örið sjáist sem minnst. Til hliðar nær örið oft rétt yfir augnumgjörðina og er samsíða hrukkulínunum.
Við aðgerð á neðri augnlokum er skurðurinn settur rétt við augnhárin og til hliðar rétt utan við augnlokaumgjörðina. Ef aðeins er þörf á að fjarlægja fitu, er hægt að gera þetta gegnum slímhúð innra augnloks og verður örið þar með ósýnilegt.
ENGIN SVÆFING
Engin svæfing er nauðsynleg þegar gert er að efri augnlokum en flestir velja svæfingu þegar unnið er með þau neðri. Þetta gerir aðgerðina ódýrari en að sögn Ágústs Birgissonar voru mun fleiri sem völdu svæfingu fyrir efnahagshrunið: “Nú sparar fólk sér aurinn og lætur gera þetta í staðdeyfingu.”
BATI
Eftir aðgerð á augnlokum þarf að bíða í 1-2 klukkustundir með kaldar umbúðir á augnunum til að minnka bólgu eftir aðgerð. Venjulega myndast einhver óþægindi þegar deyfingin fer úr en ekki mikil. Þegar heim er komið þarf að nota rakar og kaldar umbúðir til að minnka bólguna, ekki skyldi bogra eða beygja höfuðið fram (t.d. yfir tölvu) og nauðsynlegt er að taka því rólega í 4-5 daga á eftir eða þar til saumar eru fjarlægðir. Mar og bólgur hverfa svo á sirka 10 dögum að mestu en ættu að vera alveg farin á 2 – 3 vikum.
Þær alhörðustu í pjattinu verða kannski svekktar á því að hvorki má nota krem né andlitsfarða í viku til 10 daga eftir aðgerð en yfirleitt er hægt að hefja vinnu að þeim tíma liðnum. Augnlinsur má heldur ekki nota.
Smelltu á galleríið til að skoða fyrir og eftir myndir:
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.