Allar viljum við vera með löng og þykk augnhár þó að fæstar séu svo lánsamar að hafa fengið svoleiðis í vöggugjöf.
Hér á eftir fer ég yfir helstu atriðin sem hafa verið vinsæl til að lengja og þykkja augnhár, allt frá maskara upp í lengingar en ….
Maskari
…er fínn til að gera meira úr augnhárunum ef maður vill fara þá leiðina, nóg er úrvalið í öllum snyrtivöruverslunum landsins!
Næring
…fyrir augnhárin hefur verið vinsæl síðustu misserin og svokallað serum sem er borið á þau til að djúpnæra þau, þétta og lengja. Ég hef heyrt margar góðar sögur af þessum nýju undratækjum og allar sem ég þekki sem hafa prufað hafa verið ánægðar með árangurinn. Besta húsráðið til djúpnæringar sem ég veit um er Extra Virgin Ólívuolía, en fyrir svefn er örlítið magn borið á augnhárin. Sumar eru enn í því að fara í augnháralitun og permanent á snyrtistofum en slík meðferð dekkir og brettir augnhárin, og áhrifin vara í sirka 2-3 vikur.
Gerviaugnhár
…standa alltaf fyrir sínu! Svo lengi sem notast er við gott lím og maskari er ekki settur á þau (heldur bara fyrst á eigin augnhár) þá eiga þau að endast í nokkur skipti. Það er algjör óþarfi að fleygja þeim eftir fyrstu notkun og skemmtilegast við þau er að maður getur fundið gerð við sitt hæfi alveg sama hvert tilefnið er.
Augnháralengingar
…eru nýjasta æðið og þekkir maður ófáar sem hafa látið slag standa og fengið sér svoleiðis. Þetta er framkvæmt á snyrtistofum af fagaðila og þá eru stök augnhár tekin og límd við manns eigin. Þau eru dökk og þau þétta, lengja og dekkja manns eigin augnhár. Það besta við þetta er að engan maskara þarf að nota og meðferðin endist í 4-6 vikur. Mikilvægt er þó að muna að það þarf að halda þeim við, og ef maður vill láta fjarlægja þau verður fagmanneskja að gera það. Það er líka mismunandi hvernig hver manneskja er gerð og huga þarf að áhættum eins og t.d. að manns eigin augnhár þynnist og einhver af þeim detti af eftir að gervihárin hafa verið fjarlægð, en sem betur fer á ekki að vera algengt að það gerist.
Eins og sést er engin ástæða til að örvænta þó að maður sé ekki blessaður með löngum, dökkum blævængjum í kringum augun – möguleikarnir eru ótal margir!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com