Allt til sjöunda áratugs síðustu aldar þótti ákaflega fallegt að hafa föla húð.
Að segja að kona væri með ‘mjólkurhvítt hörund’ eða ‘húð eins og postulín’ var merki um fegurð hennar. Þetta breyttist þó á hippaárunum og upp úr því fór fólk að sækjast eftir því að verða brúnt. Það var líka merki um að þú hafðir efni á að bregða þér í frí til heitari landa enda lítið varið í að vera brún í löndum þar sem sólin skín alltaf. Brúnkan varð þannig merki um að þú gast leikið þér úti, ferðast og orðið brún meðan aðrir þurftu að vera inni að vinna.
Í löndum á borð við Japan og Tyrkland þykir hinsvegar ekki mikið spennandi að vera brúnn og þar reynir fólk almennt að forðast sólina til að ná fölu yfirbragði. Í Japan er t.d. selt öðruvísi Nivea krem sem hjálpar þér að verða hvítari í framan.
Tískubransinn hefur lengi vel heiðrað hið föla hörund en upp á síðkastið hefur útlitið átt meira upp á pallborðið hjá almenningi. Hugsanlega kemur það til vegna þekkingar okkar á áhrifum sólargeislanna á hörundið. Geislarnir brjóta jú niður kollagen og valda hrukkumyndun. Að sama skapi er komin ákveðinn stimpill á konur sem eru með of mikla sólbrúnku. Þær verða ‘sjoppustelpulegar’ eða ‘skinkulegar’ en þessu eru gerð góð skil í þáttum á borð við Jersey Shore, Jerseylicious og fleiri.
Á hinn bóginn eru margar fallegar leikkonur ófeimnar við að skarta sínu mjallarhvíta hörundi en meðal þeirra eru t.d. Nigella Lawson, Kate Blanchett og margar fleiri.
Á Íslandi finnst okkur flestum best að fara milliveginn. Nota hóflega af brúnkukremum en forðast sólböð og leggja mesta áherslu á heilbrigt og hraustlegt útlit.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.