Að fara í vax getur verið sársaukafullt og það getur skipt miklu máli hvernig þú ert stemmd þegar þú leggst á bekkinn.
Mér þykir til dæmis betra að fara að morgni til, eða svona klukkutíma eftir að ég vakna. Þá næ ég að henda mér í morgunsturtuna og fríska mig aðeins upp áður en ég fer á snyrtistofuna.
Ég hef tekið eftir því að ef ég fer í vax eftir langan vinnudag og er þreytt þá getur vaxmeðferðin orðið enn sársaukafyllri. Ég lenti t.d. í því eitt sinn í jólaösinni að vera mjög þreytt eftir langan og erfiðan vinnudag. Búin að standa í afgreiðslu á hörðu steingólfi frá því snemma um morguninn og snyrtistofan var þétt bókuð svona rétt fyrir jólin. Því fór ég í vax eftir vinnutíma eða rétt fyrir átta að kveldi til.
Þarna lagðist ég á bekkinn eins og vanalega en guð minn góður! Í þetta sinn var vaxmeðferðin svo sársaukafull að ég lá blótandi og bölvandi. Ég verð að taka það fram að ég er langt frá því að vera ofbeldisfull en nokkrum sinnum langaði mig til að reisa mig upp og skalla konugreyið og jafnvel að dúndra nettu sparki í hana því ég var svo líkamlega þreytt og hrikalega pirruð.
Snyrtifræðingurinn var bara að vinna starf sitt og ekki henni að kenna þótt ég hafi mætt pirruð – Þannig ég mæli með að mæta rétt stemmd og óþreytt í vaxið.
En hér eru nokkur ráð sem hafa líka dugað:
- Forðastu að drekka kaffi rétt áður en þú ferð í vax. Kaffi getur haft örvandi áhrif og einnig gert þig óþolinmóða á bekknum.
- Ekki fara í vax ef þú ert nýbúin í sólbaði (á einnig við um ljósa bekki). Ef þú ert sólbrennd þá er húð þín enn viðkvæmari og ekki bætir að hella heitu vaxi á sólbrennda húð.
- Taktu eina íbúfen eða asprín töflu áður en þú ferð. Það dregur úr sársaukanum.
- Reyndu að slaka á á meðan verið er að vaxa þig, fínt að loka augunum, anda hægt inn og út og leyfðu þér að slaka á. Ef það á ekki við þig prófaðu að leggja kapal í gemsanum, eða lesa slúðurblað til að leiða hugann frá vaxmeðferðinni.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.