Ég verð seint talin í hóp með brjóstastórum konum og miðað við umræður síðustu daga hef ég komist að því að við brjóstaminni konurnar erum nánast í útrýmingarhættu vegna ástar kynslóðar minnar og kynslóðanna þar í kring á brjóstum í stærra lagi.
Án þess að lasta stór brjóst eða nokkra aðra brjóstastærð verð ég að segja að mér finnst þetta frekar sorgleg þróun.
Þegar ég var á unglingsárum pældi ég mikið í brjóstastærðinni á sjálfri mér og komst á endanum að þeirri niðurstöðu að ég ætlaði að fara í aðgerð til þess að láta stækka á mér brjóstin um leið og færi gæfist. Þangað til varð Wonder-bra bara að duga.
Einhversstaðar á leiðinni til dagsins í dag hvarf þessi draumur minn um það að fara í aðgerð til þess að fá stærri brjóst og frá því að ég varð tvítug hef ég verið að átta mig æ betur á því að allar gerðir brjósta eru fallegar, aldur, brjóstagjöf og stærð hafa þar ekkert að segja því flest allt það sem er einstakt er æðislegt!
Margar þeirra stelpna sem ég þekki eða hef heyrt segja frá af hverju þær hafa farið í fegrunaraðgerðir, hvort sem það eru aðgerðir til að stækka brjóst eða aðrar fegrunaraðgerðir, segja að þær hafi farið í þessar aðgerðir vegna lélegs sjálfsmats.
Eins mikið og ég fagna því að til sé lausn fyrir þær stelpur og konur sem þjást af lélegu sjálfsmati verð ég að spyrja hvort aðrir en ég sjái ekki að mun hagkvæmara væri að breyta viðhorfum samfélagsins?
Það virkar einhvernvegin svo miklu betra en að hvetja þúsundir kvenna undir hnífinn svo þær falli að viðhorfum þess. Út frá pælingum af þessu tagi fer maður svo ósjálfrátt að spyrja sig hvort það hljóti ekki að vera eitthvað alvarlegt að í samfélagi þar sem sjálfsmat virðist fyrst og fremst byggja á brjóstastærð?
Hættum að bera okkur saman við líkama eða viðhorf annarra. Setjum hamingju, gleði, fjölskyldu og vini í fyrsta sætið og þá munum við alltaf líta vel út!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.