Þrátt fyrir að heilla stundum sjónræna skynjun karlkynsins getur verið mjög erfitt fyrir margar konur að hafa stór brjóst.
Þau geta meðal annars valdið verk í baki og hnakka sem leiðir til spennuhöfuðverkjar. Einnig geta þau valdið verkjum í efri hluta baks og öxlum. Stórum brjóstum fylgir líka oft exem undir brjóstunum og margar konur þjást af lélegri sjálfsímynd sem tengist brjóstunum stóru.
Þau hamla meðal annars athafnafrelsi konunnar, hefta hana í að taka þátt í allskonar íþróttum og gera það vandasamt að klæða sig í allar flíkur þar sem skyrtur og toppar passa illa.
Hvað gerist við brjóstaminnkun?
Við brjóstaminnkun er brjóstvefur fjarlægður og hluti brjóstvefs er fluttur ofar. Við þetta myndast ör i kringum geirvörturnar og undir brjóstin en það tekur örið hálft til eitt ár að verða mjúkt og ljóst.
Um helmingur kvenna getur mjólkað eftir brjóstaminnkun en oft minnkar tilfinningin í geirvörtu, sérstaklega fyrstu mánuðina og stundum varanlega. Barnshafandi konur eiga að láta kvensjúkdómalækni sinn vita ef þær hafa farið í brjóstaminnkun.
Svona fer aðgerðin fram
Aðgerðin er gerð í svæfingu og tekur um tvo klukkutíma.
Einstaka sinnum þarf að leggja dren í brjóstið, ef hætta er á blæðingu en þetta metur skurðlæknirinn á meðan á aðgerð stendur. Þegar sjúklingur vaknar eftir aðgerð má búast við vægum óþægindum en ekki miklum verkjum. Konan fær verkjalyf og þegar hún ert orðin vel vakandi og lyf farin að slá á verki er hægt að fara heim. Einstaka sinnum þarf sjúklingurinn að vera inni yfir nótt.
Ágúst Birgisson lýta -og fegrunarlæknir starfar bæði á Akureyri og í Reykjavík en er menntaður í Svíþjóð. Hann segir að brjóstaminnkunaraðgerðir séu best heppnuðu aðgerðir sem hann framkvæmir í sínu starfi:
“Það er í raun ekki flókið að meta árangurinn, ég segi að þetta séu best heppnuðu aðgerðirnar vegna þess að sjálfstraust og sjálfsánægja þeirra kvenna sem koma í slíkar aðgerðir eykst vanalega mikið eftir aðgerð. Það er best að meta árangurinn á því hversu ánægðar konurnar eru eftir aðgerðina.”
Þær konur sem við töluðum við sem hafa farið í slíka aðgerð segja hana með því besta sem þær hafa gert fyrir sjálfar sig og taka þannig undir orð Ágústs.
Margar léttast talsvert eftir brjóstaminnkun og bera líkama sinn betur. Verða beinni í baki og hnarreistar. Það verður skemmtilegra fyrir þær að máta og kaupa föt og verkir í baki og höfði hverfa.
Sumar láta minnka brjóst sín eftir að hafa áður farið í brjóstastækkun. Þetta á gjarna við ef konur verða óléttar eftir að hafa farið í stækkun. Þá stækka brjóstin oft mikið aftur og síkka, púðinn verður of lítill fyrir “umslagið” og konur ósáttar í kjölfarið.
Margar láta þá algerlega fjarlægja púða en aðrar fá sér minni og passlegri brjóstapúða.
Ef þú vilt fræðast meira um brjóstaminnkun bendum við þér á Ablaeknir.is en þar er bæði að finna verðskrá og frekari upplýsingar. Hér að neðan sjást svo nokkrar myndir af vel heppnuðum aðgerðum af þessari tegund:
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.