Nú verða þær vinkonur okkar glaðar sem vilja ómögulega fara í brasilískt vax (m.ö.o þegar ÖLL hár eru fjarlægð að neðan).
Sumar reyndar elska þetta en þær sem gera það ekki verða eflaust kátar því nú virðist þessi kviknakta ekki lengur ‘í tísku’ ef svo má að orði komast. Þetta leiða nokkrar kannanir í ljós sem gerðar voru á þessu ári sem er nú að líða.
Við erum reyndar ekki beint að tala um afturhvarf til ársins 1975 þegar Bjarnfreður Georgsdóttir var og hét en klárlega eru trendin í neðanhárasnyrtingu að breytast talsvert frá brasilísku bylgjunni sem reið yfir fyrir um 10 árum ef taka á mark á þessum könnunum; meðal annars einni (gerðri af ukmedix) þar sem 1.870 konur á aldrinum 18-30 ára voru spurðar hvort þær klipptu eða snyrtu hárin á bikinísvæðinu.
Þær láta þetta bara alveg eiga sig – Niðurstaðan leiddi í ljós að 51% aðspurðra komu bara ekkert nálægt þessu svæði með kremum, vaxi, skærum eða rakvélum af neinum toga. Leyfa semsagt lubbanum að vaxa og flaksa. 49% sögðust snyrta svæðið til en af þessum 51% sem sögðust alveg láta lubbann eiga sig voru 45% sem snyrtu einu sinni en eru steinhættar því.
Strákarnir vilja smá hár – Önnur könnun gerð af fyrirtæki sem sérhæfir sig í háreyðingum leiddi í ljós að flestir karlar kjósa heldur að hafa smá hár þarna niðri en engin. Fæstir eru þó æstir í Bjarnfreði.
Af 1.000 karlmönnum sem spurðir voru sögðu 43% að þeim þætti mest aðlaðandi þegar konan væri með lítinn ‘bermúda þríhyrning’ þarna niðri, það er að segja þegar hárin eru stytt og hliðarnar í náranum vaxaðar eða rakaðar. Aðeins 12% kusu algjört hárleysi. Konur voru hinsvegar ekki spurðar út í smekk sinn á neðanhárasprettu karla.
Tískutröllið Lady Gaga hafði líka mikil áhrif þegar hún birtist ber að neðan framan á tímaritinu Candy með yfirvaraskegg bæði að ofan og neðan en Gaga þykir gríðarlegur trendsetter sama hvort um er að ræða svört ilmvatnsglös, skoðanir, klæðnað, nú eða neðanhárarakstur.
Fleiri vísbendingar hafa verið á lofti um þetta, meðal annars þegar Gwyneth Palthrow (40) sem var kosin fegursta kona heims af People Magazine, sagðist vera í 70’s stemmara þarna niðri, eða með hennar orðum: “I work a 70’s vibe down there…”
Það má því vera lýðnum ljóst að lubbinn kemur sterkt inn árið 2014 og spurning hvort það sé ekki bara tímabært að safna? Svo er það önnur spurning hvort þú ferð alla leið með fimmtíu og eitt prósentunum og lætur þetta bara vaxa eins og Vaglaskóg í vindinum, rakar allt í burtu a-la Auðn 2014 eða snurfussar líkt og gert er við Listigarðinn á Akureyri?
Þú ræður!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.