Þessari spurningu leituðust blaðamenn breska blaðsins Daily Mail við að svara þegar þau fóru út af örkinni og hreinlega spurðu ungar konur (undir 30 ára) í helstu borgum Bretlands.
Þau gengu að stelpum sem voru á djamminu í Cardiff, London, Manchester og Newcastle og reyndu að komast að niðurstöðunni. Svörin voru flest í þá áttina að þær vildu athygli frá karlmönnum og að athyglin kæmi um leið og þær klæddu sig í lítil og þröng föt. Þá gilti það einu þó úti væru aðeins fimm gráður og komið fram í nóvember.
Stelpurnar voru flestar á einu máli um að þetta gæfi meira sjálfstraust en þó fór ekkert saman að þær væru stoltar af líkama sínum og vildu sýna hann sem mest með þessum klæðaburði.
Þvert á móti voru stelpurnar flestar óöruggar með vöxtinn en vildu samt sýna hann til að fá athygli frá stráknunum. Athyglin frá strákunum væri fyrir vikið ávísun á meira sjálfsöryggi.
Sumar sögðu að mæður þeirra samþykktu fötin áður en haldið væri út og sumar færu meira að segja með þeim út að skemmta sér. Mæðurnar fengju þá jafnvel lánuð föt af stelpunum og öfunduðu þær af vextinum.
Einkennisbúningurinn er vanalega samsettur af himinháum hælum, flegnum toppi og örstuttu pilsi eða buxum. Þó Twiggy hafi á sínum tíma klæðst stuttum pilsum er óhætt að draga þá ályktun að ungar konur í dag sækja ekki áhrifin til hennar heldur klámbransans sem hefur talsvert meiri áhrif í menningunni en margir vilja trúa.
Pjattrófurnar eru á einu máli um að það sé ekki rétta leiðin að sjálfsöryggi að reyna að vera sem árennilegust fyrir karla þegar kíkt er út á lífið eða frá degi til dags.
Sjálfsöryggi eykst í takt við það sem þér tekst að afreka í lífinu en sjálfsmyndin er oftast betri þegar útlitinu er sinnt á þann hátt að snyrtimennska, fágun og flottheit séu í fyrirrúmi. Fyrir það stöndum við Pjattrófur.
Að vera falleg og árennileg er ekki það sama og allar konur geta verið bæði flottar og glamúrus, burtséð frá kílóatölu eða staðalmyndum. Eða eins og Helena Rubinstein sagði – “Það eru ekki til ljótar konur, bara latar”.
Hreyfðu þig, borðaðu rétt og klæddu þig í takt við veðrið. Leggðu mesta áherslu á eigin afrek, sinntu áhugamálum þínum, vertu sjálfstæð og dugleg, reyndu að ferðast um heiminn og kynnast sem flestu og ekki fara yfir eigin mörk, hvorki í klæðaburði né öðru.
Með þessu öðlast ungar konur sjálfsöryggi – ekki örstuttum pilsum og pinnahælum…
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.