Sjálf hef ég prófað ógrynni af allskyns förðunarvörum og skipti um uppáhöld reglulega. Hér er samantekt á því sem mér hefur fundist standa upp úr og ég nota daglega í augnablikinu:
1. Two- Tone maskarinn frá Esteé Lauder
Nýr tvöfaldur undramaskari sem er svartur öðru megin með stórum bursta sem lengir og þykkir. Hinumeginn er hinsvegar brúnn, lítill bursti sem gott er að nota á neðri augnhár og nær meira gripi í þau en stóru burstarnir. Þessi maskari opnar augun, helst vel á og klessir ekki. Hér er hægt að lesa um hann.
2. Corrector frá Bobbi Brown
Get ekki lifað án hans! Þetta er bleiktóna hyljari sem felur alla bláa og fjólubláa tóna undir augunum. Best er að nota hann undir Concealer, einnig frá Bobbi Brown, og púðra yfir með mjög léttu púðri. Maður lítur strax betur út með þennan. Þið sjáið nánari umfjöllun hér.
3. Hey Sailor! Sólarpúður frá MAC
Sólarpúður gerir gæfumuninn í förðun og ég nota svoleiðis daglega. Í augnablikinu er ég rosalega skotin í Hay Sailor! sólarpúðrinu frá MAC sem er alveg laust við appelsínugula tóna, er með léttri sanseringu og helst vel á.
4. Pot Rouge kremkinnalitur frá Bobbi Brown
Auðveldasti kinnalitur í heimi, kremaður, þægilegur og hægt að nota bæði á kinnar og varir. Maður tekur bara puttana og dreifir smá lit yfir “eplin” á kinnunum. Ég nota litina Powder Pink og Pale Pink.
5. Rosebud Smith varasalvi
Ég er oftast með varalit eða gloss en varasalvinn finnst mér þó ómissandi. Rosebud Smith salvarnir eru æðislegir og ég nota minn mest af öllum öðrum tegundum. Það er líka hægt að nota hann á þurrkubletti og annað slíkt sem er stór kostur.
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com