Húðin er stærsta líffæri mannslíkamans og við þurfum að hugsa vel um hana til að líta sem best út. Þetta þarf hvorki að vera of dýrt né tímafrekt, einföld rútína daglega ætti að duga þó að mér finnist best að taka líka vikulegt dekur.
Hvernig vörur verða fyrir valinu er persónubundið og ég mæli eindregið með því að hóa í næsta snyrtifræðing eða jafnvel förðunarfræðing og fá smá ráðgjöf með hvað hentar þinni húð best.
Rútínan sem kemur hér er skotheld.
1.
Á kvöldin er það augnfarðahreinsir, hreinsimjólk eða hreinsiklútur til að hreinsa allt af augunum. Kvölds og morgna er farið yfir blautt andlit með hreinsimjólk/froðu/geli og svo þrifið af með volgum þvottapoka. Fyrir þá sem vilja er hægt að nota toner. Mæli með því að klára hreinsunina með kældum þvottapoka, en það minnkar svitaholur og bólgur.
2.
Serum er æði til þess setja undir krem, þar sem að það fer dýpra inn í húðina heldur en kremið og inniheldur meiri virkni. Ég nota það 2x á dag og hægt er að fá serum fyrir allar húðtýpur og allan aldur.
Dagkrem, næturkrem og/eða 24 stunda krem er nauðsynlegt til að vernda húðina fyrir áreiti og óhreinindum og gefa henni þá næringu og raka sem hún þarfnast. Það er hægt að eiga dag- og næturkrem til þess að bera á húðina eftir hreinsun, eða þá að splæsa í 24 stunda krem sem bæði er hægt að nota kvölds og morgna.
3.
Augnkrem er gott fyrir alla og sérstaklega konur sem eru komnar yfir 25 ára aldur, en snyrtifræðingar mæla með því að byrja að nota augnkrem ekki seinna en þá. Eins og með hitt er hægt að fá tegund sem hentar hverjum og einum, hvort sem losna þarf við bauga, bústin augu, fínar línur eða bara til að næra augnsvæðið. Það er ótrúlega sniðugt að geyma augnkremið sitt inni í ísskáp til að fá kælinguna í leiðinni!
4.
2-3x í viku er mælt með því að skrúbba húðina með kornakremi til að fjarlægja dauðar húðfrumur og halda henni sléttri og líflegri. Passið bara að nota sitthvorn skrúbbinn á andlit og líkama þar sem kornin í líkamsskrúbbinum eru stór og geta rispað húðina í andlitinu. Það tekur lítinn tíma að gera þetta í sturtunni!
5.
Dekur er gott fyrir sál og líkama og ég mæli með því á viku fresti, t.d. á sunnudögum eða fyrir sérstakt tilefni. Húðin er fyrst tekin og hreinsuð, settur er hreinsimaski á og honum síðan fylgt eftir með rakamaska. Serumið og kremin sett á eftir að rakamaskinn er hreinsaður af. Það er svo ekki vitlaust að eiga eins og eitt “sparikrem” til að gefa húðinni auka gljáa.
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com