Það er alveg magnað hvað maður getur verið ljótur þegar maður vaknar á morgnanna. Það er næstum því bara áskorun að líta í spegil.
Hárið eins og á Rod Stewart eftir alvarlegt djamm, augun bólgin eins og á Mr. Magoo, andlitið bólgið, fingurnir eins og kokteilpylsur með áföstum hringum. Áföstum í orðsins fyllstu því þú nærð þeim ekki af. Það er bara mesta furða að þú skulir yfirleitt þekkja sjálfa þig í speglinum.
Málið er að þetta þarf alls ekki að vera svona. Þú getur vaknað alla morgna og litið út eins og Pamela í Dallas ef þú vilt. Málið er bara að fara eftir þessum leiðum og það sem er betra, að ef þú venur þig á þessi trikk, sem margir fatta ekki fyrr en þær eru orðnar eldri borgarar, þá áttu eftir að vera sætari, alla daga, alltaf.
1. Skiptu um stellingu
Þetta eru slæmar fréttir fyrir þær sem elska að sofa á maganum. Venjulegt höfuð er á bilinu 4-5 kíló að þyngd en það er sko hellings þungi að leggja á eitt andlit. Meira að segja færir húðlæknar sjá á hvorri hliðinni þú sefur af því það eru fleiri hrukkur þar. Eh?!
Ef þú getur alls ekki sofið á bakinu skaltu velja hliðina og hafa helst auka sæng til að knúsa og leggja höfuð og fætur upp á því það hjálpar aðeins til.
Ef þú ert svo blessuð að geta sofið á bakinu skaltu prófa að bæta við kodda undir bæði höfuð og axlir svo þú sért hærra upp. Þyngdaraflið hjálpar til við að halda bólgum frá andlitinu og þá vaknarðu ekki eins og Mr. Magoo í framan.
2. Farðu fyrr að sofa
Það er góð og gild ástæða fyrir því að svefninn er allra meina bót, en þá erum við að tala um að fá nóg af honum en ekki of lítið. Passaðu að fara á réttum tíma í háttinn þannig að þú fáir allavega 7-9 kls svefn.
3. Berðu rakakrem á fæturna
Settu eitthvað mjög feitt og gott rakakrem á fæturna og farðu í sokka yfir. Þú vaknar eins og þú sért nýkomin úr fótsnyrtingu. Ef þú ert týpan sem sefur mjög fast og vel þá er gott að gera það sama við hendurnar. Þú færð hvíta bómullarhanska úti í apóteki. Þér á örugglega eftir að líða smá eins og trúði með sokka á fótum og hanska á höndum en þú vaknar eins og prinsessa.
4. Augnháralengingar
Ef þú vilt vakna og líta út eins og Hollywood stjarna alla morgna skaltu prófa augnháralengingar. Þú vaknar eins og bambi alla morgna með blævængi sem blaka framan í ástina þína. Við mælum með snyrtistofunni Makeover í Firðinum en hún Þórey þar er snillingur.
5. Fylling í hárið
Ef þú tekur hárið allt saman í mjúkan vöndul efst á höfðinu og festir með lausu bandi eða mjúkri teygju þá áttu eftir að vakna með mikið meiri fyllingu í hárinu. Prófaðu þetta en passaðu að hafa teygjuna mjúka til að hárið verði ekki beyglað.
6. Trítaðu hárið meðan þú sefur
Einu sinni í viku getur verið gott að sofa með djúpnæringu í hárinu. Passaðu að vefja það þétt inn í lítið, en þunnt og mjúkt handklæði og leggðu handklæði yfir koddann.
7. Vaknaðu með fallegan húðlit
Bættu við smá brúnkukremi í næturkremið þitt eða settu smá brúnkukrem á þig fyrir hátinn. Best að gera það um klukkutíma áður en þú ferð í rúmið svo að þetta klínist ekki allt í rúmfötin.
8. Settu klút á koddann
Til að koma í veg fyrir að vakna öll úfin er gott að setja satínslæðu eða silkiklút á koddaverið eða um hárið. Það er mikið mýkra en bómull og kemur þannig í veg fyrir að þú vaknir eins og fuglahræða um hárið.
9. Þrífðu andlitið alltaf fyrir háttinn
Því ef þú gerir það ekki er mikið líklegra að þú vaknir með bólur og útbrot. Í vetur skaltu líka sjá til þess að eiga góðan rakamaska en þeir eru gersamlega nauðsynlegir okkur hér uppi á skerinu þar sem loftið er næstum því of þurrt til að hægt sé að anda því að sér.
10. Skiptu á rúminu
Einnig skaltu passa að skipta vikulega á rúminu hjá þér því annars safnast bara óhreinindi, hárlakk og þessháttar og fita í koddann og það smitast svo í andlitið á þér og fer illa með húðina. Hreinn koddi, falleg húð.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.