Ég hef alltaf pælt mikið í fegurð og því hvernig fólk hugsar um útlitið. Fjölbreytileiki gefur lífinu lit og tilveran væri frekar leiðinleg ef að allir væru steyptir í sama mót.
Hér eru 10 atriði sem konur mættu forðast og/eða gera öðruvísi…
1. Ekki ofnota ljósabekki/brúnkukrem
Hófleg og frískleg brúnka er alltaf falleg en ekki þegar hún er farin að yfirgnæfa allt annað á manneskjunni. Góð vísa er aldrei of oft kveðin varðandi það að óhófleg notkun ljósabekkja er mjög óholl fyrir húðina okkar og við verðum að gæta þess að nota góða sólarvörn þegar farið er í sólina!
2. Ekki þvo hárið of oft
Annar hver dagur er meira en nóg. Annars þorna endarnir upp og þetta gæti orsakað það að hársvörðurinn offramleiði náttúrulegar olíur sem gerir það að verkum að rótin verður feitari. Gott er að nota þurrsjampó ef manni finnst hárið enda of feitt á milli þvotta.
3. Skófluneglur eru ekki töff
Hægt er að fá fallegar gel- eða akrílneglur en ef þær eru of breiðar á endunum og of langar geta þær litið mjög gervilega út. Neglurnar á stelpunum í Jerseylicious eru gott dæmi um þetta
4. Ef þú varst ekki uppi á 4. áratugnum
Þá eru ofplokkaðar augabrúnir ekki málið. Það er um að gera að móta þær fallega og plokka aðeins undir. Svo vaxa hárin ekki alltaf aftur ef þau eru plokkuð of mikið.
5. Of mikið meik
Lítur ekki vel út og getur stíflað húðina þannig að bólur myndast og húðin getur líka orðið þurr af því.
6. Lélegt mataræði
Það er gott fyrir sálina að fá sér eitthvað syndsamlegt einstaka sinnum en mikið af djúpsteiktum, söltum og sætum mat fer oftar en ekki út í húðina og gerir hana líflausa og stundum feita. Þó það fitni ekki endilega allir af óhollum mat er vert að hugsa um hvað hann gerir húðinni og líffærunum.
7. Gamalt naglalakk sem er farið að brotna upp úr
Eyðum auka 10 mínútum í að taka okkur í smá handsnyrtingu þegar við sjáum að lakkið er orðið gamalt.
8. Þurrar og sprungnar varir
Við þornum auðveldlega upp á veturnar og það er um að gera að hugsa þeim mun betur um varirnar með einstaka skrúbb og nota varasalva eða gloss daglega.
9. Ofnotkun á hárblásara/sléttujárni/krullujárni
Hiti fer ekki vel með hárið og það þarf að nota góða hitavörn og gefa því hvíld öðru hverju. Annars getur það slitnað.
10. Of lítil vatnsdrykkja
Segir sig sjálft. Vatn gefur okkur raka og heldur okkur gangandi.
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com