Ég var að ljúka við að lesa bókina Útlaginn eftir Jón Gnarr og í stuttu máli get ég sagt… Þetta er ekki auðveld bók sem lesin er í einum grænum.
Einmanaleikinn og einstæðingsskapurinn lekur af hverri blaðsíðu. Jón er ekki munaðarlaus en hann gæti alveg eins verið það.
Það er enginn sem fylgist með honum, foreldrar hans eru bæði fullorðin og þreytt. Þau skilja ekki þennan undarlega son sinn og hann skilur þau ekki.
Samskipti þeirra eru í algeru lágmarki og markast kannski helst af því að þau láta vita að þau hafi orðið fyrir vonbrigðum með eitthvað í hegðun eða eðli hans og hann lofar bót og betrun. Jafnvel matmálstímarnir eru undarlegir, enda er það móðir vinar hans sem kennir honum að nota saman hníf og gaffal þegar hann er orðinn 12 ára gamall. Fyrir þann tíma hafði hann aldrei leitt hugann að því að slíkt væri gert.
Höfnun og meðvirkni
Þegar Jón fermist fjórtán ára gamall er til siðs að ættingjar fermingarbarnanna standi upp í kirkjunni þegar barnið er fermt. Foreldrar Jóns standa ekki upp og bera því við að þau skammist sín fyrir það hvað þau eru gömul.
Eðlilega upplifir fjórtán ára drengurinn það sem mikla höfnun. Að þau vilji ekki gangast við honum. Saga hans er öll á þessa lund. Hann vill ekki styggja móður sína og hann fyrirlítur föður sinn. Það er samt ekki hægt að skilja annað en að honum hafi þótt vænt um hann á sinn hátt og þeim um hann, en þau kunna bara ekki að sýna það.
Berfættur og vanræktur á heimavist
Jón fer í heimavistarskóla og tekur aðeins lágmarksdót með sér. Fatnaðurinn sem á að duga í heila önn, er t.d. bara tvenn sokkapör sem hann týnir fljótlega eftir komuna vestur og gengur þá bara berfættur. Það er engin aðstoð við þvotta svo hann fer bara í sturtu í fötunum og þvær þau þannig.
Ég veit ekki hvort þetta er satt eða hvort þetta er sagt til að gera söguna dramatískari en á mig virkaði þetta sem gríðarlegur einstæðingsskapur. Þegar hann fer á spítala í aðgerð þá veit mamma hans af því en hún heimsækir hann ekki og læknirinn finnur enga hvöt til að hafa samband við foreldra hans (kannski má hann það ekki þar sem á þessum tíma var fólk talið fullorðið 16 ára). Því er litið svo á að Jón sé orðinn fullorðinn og þetta er hans mál.
Hann er hinsvegar svo óframfærinn að hann getur ekki spurt að neinu og læknirinn segir honum ekki neitt. Fremur bara sína aðgerð og sendir hann heim eftir 10 daga. Eftir stendur 16 ára drengur nýkominn úr aðgerð og hann veit ekkert hver framtíðin verður, hvort honum á alltaf eftir að líða svona illa eða hvort þetta komi til með að lagast.
Trúðurinn á Núpi
Þrátt fyrir einstæðingsskapinn plummar Jón sig ágætlega á Núpi, miklu betur en heima í Reykjavík. Hann er vinsæll og fær að leika trúðinn. Það er enginn sem lemur hann eða leggur hann í einelti. Hann fær að vera hann sjálfur, eða alla vega leika einhverja mynd af sjálfum sér. Þegar hann kemur aftur heim til Reykjavíkur er hann aftur einn, engir vinir, enginn sem hann getur talað við. Af tvennu illu er því skárra að vera á Núpi.
Hópnauðgunin var aðeins lítill hluti af þessari sögu
Í umfjöllunum um bókina er mikið rætt um ætlaða hópnauðgun en það er ekki stærstur hluti þessarar sögu. Þetta er einungis einn atburður af mörgum sem gerist meðal barna sem ala sig upp sjálf fjarri öllum fullorðnum. Það eru fullorðnir í skólanum en þeir skipta sér ekki af neinu frá því þeir læsa á kvöldin og þar til opnað er á morgnana. Hvað gerist meðal óharðnaðra barna og unglinga þegar þau hafa nægan tíma og ekkert við að vera? Sum þeirra þar að auki í vandræðum með skapið og væru eflaust með allskonar greiningar ef þau væru í skólakerfinu í dag.
Jón lýsir áhrifunum sem þessi atburður hafði á hann, hann vissi ekki hvort þetta var rangt eða rétt það sem þarna fór fram en hann þorði ekki að mótmæla þó hann tæki ekki þátt. Þessi atburður leitar á hann og hann reynir að staðsetja hann á réttum stað en gengur það ekki vel.
Niðurstaða: Jón er lipur penni og það er auðvelt að finna til með óhörnuðum unglingnum sem á hvergi heima. Hvorki meðal ættingjanna í Reykjavík eða jafnaldranna á Núpi. Hann er útlagi sem reynir að finna sér stað í tilverunni. Ég veit ekki hvort það er pólítískt rétt af mér að segja að bókin sé skemmtileg, – til þess er hún allt of full af einsemd og löngun til að tilheyra einhverjum. En ég hafði samt gaman að henni og suma kaflana var unun að lesa meðan aðrir voru erfiðari. Ég ætla að gefa henni fjórar og hálfa stjörnu því ég er búin að hugsa mikið um efni hennar og hún hreyfði við mér.
[usr 4.5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.