Útivinnandi móðir segir upp!
Feður sækja börnin sín, vaska upp, elda mat og þvo þvotta sem aldrei fyrr.
En hver sér til þess að börnin muni eftir leikfimisfötunum, hver pantar fyrir þau tannlæknatíma, kaupir gjafir og býður vinum þeirra heim? Gunilla Bergensten 42 ára, móðir tveggja barna, gift Magnúsi og íbúi í Gautaborg sagði upp sem verkefnastjóri fjölskyldunnar. Hér kemur úttekt úr dagbók hennar sem skrifuð er eftir uppsögnina.
Nú man ég hvað gerðist þennan dag. Það var 9 janúar sem allt byrjaði. Nú veit ég það.
Ég spurði Magnús:
„Hefur þú tekið eftir að John er með fótvörtur?“
„Nei en hann hefur sagt mér það.“
„Hann er með átta vörtur.“
„Já, hann sagði það.“
„Hefur þú keypt eitthvað við þessum vörtum?“
„Nei átti ég að gera það?“
(…)
Þetta var 9 janúar, gott dæmi um það hvað rifrildi okkar snúast um. Við rífumst ekki um peninga, við erum bæði í auglýsingabransanum og með gott kaup. Ég þéna nokkur hundruð þúsund meira en Magnús en það er samt ekki mikill munur. Við höfum nánast sömu ábyrgð og vinnuálag sem getur rokkað frá því að vera mikið niður í minna. Við erum bæði ánægð í vinnu og höfum það gott. Mjög gott. Við erum meira segja heppnari en margir aðrir í svipuðum „miðstétta- sporum“ þar sem flestir þurfa að borga mjög mikið í húsnæðislán ofl. Samt rífumst við heiftarlega af og til. Um þreytu, þreytu í höfðinu, í heilanum mínum.
Við rífumst og það er alltaf ég sem byrja. (…)
Þann 9. janúar gerðist eitthvað sem varð til þess að ég gat orðað það sem ég í raun vissi þá þegar. Einhver ýtti við domino-kubbnum sem velti öðrum og þegar þeir voru allir fallnir þá sást mynstrið.
„Þú þarft ekki að hugsa um það sem þú veist að ég sé um. Þú veist það. Ég get ekki leyft mér að gleyma. Þú getur hallað þér aftur og slappað af en ég fæ ekki hjálp! Ég hef ekki meðfæddan hæfileika til að sinna þessarri vinnu!,“ hvæsi ég á manninn minn.
„Hvað meinar þú, þessari vinnu?“
„Vinnan við að vera fokking verkefnastjóri þessarrar fjölskyldu. Þú verður að andskotast til að skilja að þó ég sé kona þá hef ég ekki meðfædda hæfileika til að muna eftir pappírum, dagsetningum og leikfimisfötum og nestisboxum og svo framvegis og út í hið óendanlega en ég neyðist til þess.“ (…)
Kajsa hringdi. Hjá „Svensson“ fjölskyldunni höfðu þau einmitt verið að klára mjög „líflegar“ umræður. Kajsa, verkefnastjóri þeirrar fjölskyldu, hafði nefnilega reynt að segja upp. Hún fékk stjórnunarstöðu fyrir nokkrum mánuðum og hafði ekki lengur tíma til að stjórna heimilinu með jafn harðri hendi og áður. Nú var komið frost og börnin vaxin upp úr kuldaskónum.
En hún náði ekki að redda því.
Við gætum til dæmis haft námskeið á háskólastigi: Ein önn í Fjölskyldu-Verkefnastjórnun, hálf önn í Veðurskilyrtu fatavali, hálf önn í „Börnin stækka“.
Nú þurfti einhver annar að taka við verkefnastjórastöðu heimilisins því starfsmannaþróun, samtöl og launakröfur tók tíma hennar allan. Samkvæmt Kajsa hljómaði rifrildið svona:
„Það er þér að kenna að hlutirnir ganga ekki hér heima.“ Hélt Pétur fram.
„Ha? Um hvað ertu að tala?“
„Þú tókst stjórnina fyrir löngu síðan. Þú hefur stjórnað heimilinu og lífi okkar, vegna þess að það var þannig sem þú vildir hafa það. Þú vildir ráða. Og ég steig tilbaka og leyfði þér að stjórna öllu, VEGNA ÞESS AÐ ÞAÐ VAR ÞANNIG SEM ÞÚ VILDIR HAFA ÞAÐ, ÞÚ VILDIR RÁÐA. Ef ég man rétt, og ég man það, — þá gafstu þig ekki fyrr en þú fékkst þínum vilja fram.“
„OK, ég nenni nú ekki einu sinni að ræða þetta. Þú upplifir þetta svona en nú gengur það ekki lengur. Nú þurfum við að hjálpast að, eða nei nú þarft þú að taka við, því ég get ekki meir. Ég hef ekki orku í tvöfalda vinnu, það er komið að þér.“
„Nei heyrðu mig nú, svo einfalt er þetta ekki. Þú tókst völdin, þú mátt hafa þau. Ég get ekki bara stokkið inn, ég kann það ekki. Ég er kominn úr æfingu.“
„Hvað meinaru? Ertu orðinn algjörlega aðgerðalaus? Skrapp heilinn í þér saman eða…!?“
„Já ég er ekki í æfingu, það yrði aldrei nóg, ég myndi aldrei gera þetta nógu vel fyrir þig!“
Þögn.
Hahahaha. Þetta er of mikið, það er ekki nóg með að við erum dauðþreyttar, við þurfum líka að heyra að það er okkur sjálfum að kenna.
Fólk heldur því fram að það sé konum sjálfum að kenna að þær þurfa að bera ábyrgð á verkefnum fjölskyldunnar. Það er víst þannig, las ég að ég held í dagblaðinu „Dagens Nyheter“ að vegna þess að við höfum ekki völd í atvinnulífinu þá þurfum við að bæta okkur það upp með því að stjórna heimilinu. Þannig að okkur finnist við skipta máli einhvers staðar.
Með því að hafa svona háar (og óréttlátar) kröfur til litasamsetninga á fötum barnanna, á húfum þegar kalt er úti, heimili sem ilmar vel, rúm með hreinum rúmfötum og gjafir til þeirra sem eru svo vingjarnlegir að bjóða okkur heim til sín, höfum við útilokað karlmennina. Því er haldið fram að við tökum ekki annað í mál en að hlutirnir séu gerðir eftir okkar höfði, einungis til að tryggja okkur að karlmennirnir skipti sér ekki af.
Það er ekki rétt, það er kjaftæði!
Menn geta gert hlutina á þann hátt sem þeir kjósa, bara ef útkoman er góð. Það held ég að flestir séu sammála um.
19 mars. Ég hringdi heim til Mikaels bróður míns og konu hans, mágkona mín svarar.
„Viljið þið kom í mat til okkar á föstudag?“
„Augnablik, spjallaðu við Mikael,“ svarar hún.
Áhugavert. Bróðir minn útskýrir að hjá þeim beri hann ábyrgð á að koma upplýsingum frá fjölskyldunni sín megin til Carolinu og Carolina ber ábyrgð á því sem snýr að hennar fjölskyldu.
Ég hugsa þögul um hvort það muni breytast, það vona ég ekki. Annað sem mér finnst áhugavert er þegar ég ætla að ræða matarboðið við Mikael þá finnst mér það pínu óþægilegt og ótraustvekjandi. Þegar ég hugsa málið þá fatta ég að ég treysti honum ekki til að meðtaka upplýsingarnar og koma þeim rétt áleiðis. Að hann viti ekki hvað skuli gera næst, að ég fái ekki rétt skilaboð.
Upplýsingar af þessum toga skal koma áleiðis frá konu til konu. Af gömlum vana (…)
Stundum velti ég því fyrir mér, hvernig menn geta tekið þessu þegjandi. Hvernig þeim getur fundist allt í lagi að vera niðurlægðir og útilokaðir á þennan máta.
En afhverju ekki? Það er mjög þægilegt fyrir þá.
9 apríl. Systir mín setti öskju með krítum í stigann á fyrstu hæð.
Nú hefur askjan verið þarna í tvær vikur. Það er komið ryk í hana og einhver hefur sparkað í hana en enginn hefur tekið hana og farið með hana upp stigann. (…)
Systir mín lætur öskjuna vera, hún snertir hana ekki, hún er að athuga hvort það sem hún hefur lengi haldið sé rétt. Hún vill vera viss, viss um að það er bara hún og enginn annar sem fer með hluti upp stigann. Askjan liggur þarna. Systir mín segir ekkert, það safnast meira og meira ryk í öskjuna.
Hversu oft á dag fara hún, maður hennar og börn framhjá öskjunni? Upp og niður tröppurnar. Hún reiknaði það út að þau færu framhjá amk. 14 sinnum á dag. Með einföldum útreikningum komst hún að því að eftir viku höfðu þau farið 392 sinnum framhjá öskjunni.
12 apríl. Ég tók eftir því í dag að Magnús reynir þrátt fyrir allt að spyrja mig, á nokkra mismunandi vegu, svo ég fatti ekki að það snýst í grunninn alltaf um það sama „Hvar er…?“ Ég hef tekið eftir því að hann gerir röddina aðeins mildari og spyr mig varfærnislega og ég er alltaf „elskan“ þegar hann þarf að spyrja mig að einhverju. (…)
Hvert einasta „hvar geymum við?“ er sönnun þess að við vitum bæði að það er satt. Það er bara ég sem tek til í þessu húsi.
14 maí. „Elskan, hvernig stendur á því að þú nennir yfir höfuð að vera með mér?“ spyr Magnús stundum.
„Ég veit það ekki akkúrat núna.“ segi ég
23 maí. Ég fór á netið, var að reyna finna námskeið fyrir karlmenn, þar sem þeir geta æft sig? En ég fann ekkert. Þannig að ef þetta er spurning um fræðslu. Að menn geta ekki séð um fjölskyldu-verkefnastjórnun þá ætti auðvitað að vera til nám í því. Fyrst allar sem ég þekki eiga við sama vandamál að stríða með sína maka og makarnir vilja allir óska þess að þeir væru betri í því (amk. allir skynsamlegir menn).
Við verðum að hætta að ala upp duglegar stelpur.
Við gætum til dæmis haft námskeið á háskólastigi: Ein önn í Fjölskyldu-Verkefnastjórnun, hálf önn í Veðurskilyrtu fatavali, hálf önn í „Börnin stækka“.
10 júní. „Nei ég er sko ekki sérlega gagnlegur“ sagði maður í matarboði hjá vinum okkar. Það var girnilegur matur á borðum. Kertaljósin dönsuðu létt og vörpuðu skugga rauðvínsglasanna á nýstraujaðan hvítan dúkinn. Gestgjafinn (konan) hafði boðið okkur, hún hafði verslað inn og eldað, straujað dúkinn, tekið til, lagt á borð, keypt blóm, kveikt á kertum, fundið til fötin á börnin, grillað pylsur handa þeim og þrifið snöggvast klósettið áður en við komum.
„Það er sko eitthvað annað en Jóhanna,“ hélt maðurinn áfram og kinkaði kolli í átt að konu sinni. „Ef ég fer í búð til að kaupa mjólk, þá geng ég beint að kælinum, tek mjólkina, geng að afgreiðsluborðinu, greiði fyrir hana og fer. En Jóhanna, hún fer t.d. framhjá hillunni með þvottaefnum og man þá að okkur vantar mýkingarefni og kaupir það líka. Hún er frábær. Er það ekki Jóhanna? Það er ekkert gagn í mér?“
Allir brostu. Jóhanna gat ekki annað en staðfest þetta, kinkað kolli og brosað og notið þess að fá hrós frá eiginmanni sínum. Auðvitað varð hún pínu stolt?
Af því að vera svona hæf? Það sátu pottþétt allnokkrar konur þarna við borðið og vildu óska að menn þeirra myndu sína þeim sömu virðingu. En ef við viljum fá það frá maka okkar er það þá næstum jafn gott og að fá hrós frá öðrum konum:
„Það er ótrúlegt að þú hafir orku til að sjá um þetta allt ein.“
Þá verðum við konur svo glaðar og stoltar, það gefur okkur aukinn kraft til að stýra skipinu áfram enn hraðar. Bamm!
Og auðvitað styrkir það sjálfsálitið að vera uppáhalds foreldri barna sinna í öllum aðstæðum. Að hafa stjórn á aðstæðum, þekkja heimilið eins og lófann á sér, vita allt, kunna allt.
Það er viðurkenning á að maður sé alvöru kona, dugleg stelpa. Þó það þýði að þú fáir líka allan grátinn og þurfir væntanlega að leysa rifrildi. Þú getur ekki farið út að kvöldi því enginn getur svæft börnin annar en þú. Þú hefur minni og minni tíma fyrir sjálfa þig. Þú hefur stöðugar áhyggjur yfir að þið séuð kanski að verða búin með klósettpappírinn, að þú munir gleyma afmælisdegi eða gleyma síðasta skiladegi á einu og öðru. Það er viðurkenning en það gefur þér ekki vald að vera sú sem veit hvar vettlingarnir eru. Það er ekki óyfirstíganleg hindrun að hugsa um börnin sín og passa upp á að þeim sé ekki kalt á höndunum, það gefur manni ekki völd að vera verkefnastjóri fjölskyldunnar.
Lausnin felst ekki einungis í því að ala drengina okkar upp við jafnrétti, við þurfum að ala stúlkur okkar upp til að vera latar. Vera stelpur sem taka pláss, sem taka það sem þeim ber og þjóna ekki öðrum. (…)
Hættu að blekkja sjálfa þig og mundu að í hvert skipti og einhver hrósar þér að það er dýrkeypt viðurkenning, hún kostar þig ómældan tíma. Hvers virði er það? (…)
Við erum týnd kynslóð. Mér þykir leitt að segja það en það eina sem við getum gert er að kvarta, skamma og fá reglulega kast. Vegna þess að ég held þeir geti þetta alveg, mennirnir, þeir bara 1: Eru ofdekraðir. 2: Latir. Þeir geta, en þeir 1: Hafa enga æfingu. 2: Nenna ekki.
Þetta fær mig til að hugsa um föður minn. Miðað við hann er Magnús mun meira til staðar fyrir börn sín. Magnús tekur mun meiri þátt í heimilisverkum, í uppeldi barnanna og í fjölskyldulífi okkar.
Það er mikill munur.
Ef svo mikið getur gerst á einni kynslóð þá ætti að geta átt sér stað amk. jafn stór breyting á næstu kynslóð. Því þó við þurfum að nöldra, skamma og kvarta þá vona ég að næsta kynslóð kvenna þurfi ekki að gera það. Það er undir okkur komið.
Við verðum að hætta að ala upp duglegar stelpur.
Lausnin felst ekki einungis í því að ala drengina okkar upp við jafnrétti, við þurfum að ala stúlkur okkar upp til að vera latar. Vera stelpur sem taka pláss, sem taka það sem þeim ber og þjóna ekki öðrum. (…)
Verið latar. Verið rosalega latar. Hvaða skilaboð sendir þú börnum þínum ef þú heldur áfram að þjóna öllum? Það þýðir það sem ég hef áður staðfest, í stuttu máli munu börnin vera í ósamstæðum fötum, ekki vera með húfu á veturna, einhverjir afmælisdagar munu gleymast svo og foreldrafundir, skólaferðalög og annað. Þið munið aldrei finna neitt á heimilinu, allt verður í drasli og „heimilisilmurinn“ frekar rotinn.
Það verður satt að segja ekki sérlega huggulegt, eiginlega pínu helvíti en aðeins á þennan máta getur þú bjargað næstu kynslóð kvenna.
Grein sem birtist á www.information.dk, úrtekt úr bók Gunilla Bergensten: „Familjens projektledare säger upp sig“ útgefandi Gyldendal.Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.