Já ég er í aðhaldi… bölvuðu aðhaldi!
Til þess að haldast í mínu aðhaldi þarf ég að fá eitthvað bragðgott snakk svo ég springi ekki á limminu og detti beint í snakkið og súkkulaðið! Því það er jú svolítið auðvelt að detta í það góðgæti.
Ég ákvað að prófa allskonar hollustu nammi og það vill svo til að ég elska grænmeti og ídýfur. Já, það VERÐUR að vera ídýfa líka því annars er ekkert sérstaklega gaman að því að borða blessaða grænmetið.
Vinkona mín kom til mín um daginn með fullan poka af allskonar grænmeti, sýrðan rjóma og púrrulaukssúpu í pakka. Svo skar hún grænmetið niður í strimla, blandaði sýrða rjómanum við púrrulaukssúpuna og bjó til þessa fínu ídýfu.
Mmmm* ég verð að segja að ég er algjörlega húkkt. Auðvitað hafði ég smakkað þetta áður, því þetta er ekkert nýtt. Við vitum það allar! En málið er að við eigum það til að gleyma hollustu namminu þegar súkkulaðið kallar.
Til að smella í svona ídýfu þá þarftu sýrðan rjóma (10%) og púrrulaukssúpu. Nóg er að nota hálfan pakka af púrrulaukssúpunni í einn sýrðan rjóma. Þú einfaldlega hrærir þetta saman og þá er ídýfan tilbúin. Einfald og alveg hrikalega gott!
Grænmeti sem gott er að dýfa í þessa himnesku ídýfu er til dæmis, gulrætur, brokkoli, blómkál, rauð og gul paprika, agúrka og já bara allt það grænmeti sem þér finnst gott.
Prófaðu að skera niður slatta af grænmeti og skella í þessa fínu ídýfu, þú átt ekki eftir að hugsa um súkkulaðið á meðan þú bragðar á þessu góðgæti… lofa því – og þú verður södd með góða samvisku og kroppinn fullan af vítamínum.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.