Þessi girnilegi kjúklingaréttur frá Pakistan er bæði bragðmikill og góður og gott að útbúa í stórum skammti og frysta á eftir ef vill. Ekki stressa þig á þessum langa lista yfir innihaldsefni. Ef þú ert mikil kryddmanneskja þá leynist meirihlutinn af þessu í skúffunni hjá þér.
fyrir 4-5
- 5 kjúklingabringur
- 5 msk jómfrúarolía
- 2 stórir laukar
- 3 tsk hvítlaukur, pressaður
- 3 tsk engifer, rifið
- 1/2 rautt chilli, fínt saxað
- 4 tómatar, fínt saxaðir
- 400 g grísk jógúrt
- 1 tsk kumminfræ
- 3 stórar kardimommur
- 2 lárviðarlauf
- 1 tsk chilliduft
- 1 tsk túrmerik
- 5 negulnaglar
- 1 tsk sjávarsalt
- 1 búnt ferskt kóríander, saxað
- 2 dl vatn
Hitið olíu í stórum potti. Bætið lauk út í og mýkið þar til gullinbrúnn. Takið þá laukinn úr pottinum og setjið í skál til hliðar og látið kólna.
Bætið hvítlauk, engifer og chilli út i pottinn og hrærið í nokkrar mín. Passið að hafa ekki of mikinn hita. Bætið tómötunum og kókosmjólk út í, hrærið vel. Látið malla í um 5 mín.
Maukið laukinn vel í matvinnsluvél og bætið í pottinn. Kryddið með kummindufti, kardimommum, chillidufti, túrmerik, negulnöglum, sjávarsalti og lárviðarlaufi. Látið malla þar til olían skilur sig frá eða í um 5 mín. Kryddið kjúklingabringur með salti og pipar, setjið í pottinn og veltið þeim vel úr kryddmaukinu.
Látið malla við lágan hita í 25-30 mín eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Bætið þá vatni saman við. Ég setti þetta í góða gráa Tupperware pottinn minn sem fer beint í ofninn. Takið lokið af pottinum og látið helming af kóríander út í og látið malla í 10 mín í viðbót. Bætið þá afganginum af kóríander saman við og berið fram.
Borið fram með hýðishrisgrjónum sem blandað er með mangó bitum, fersku eða frosnu og góðu grænu salati.
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.