Undanfarið hef ég bakað mikið af makkarónum og átti ég þess vegna stútfullann ísskáp af eggjarauðum. Ég var ekki lengi að ákveða hvað ég ætlaði að gera við þær.
Ég ákvað að búa til súkkulaði eclair með fyllingu sem krefst hvorki meira né minna en 6 eggjarauða. Ég hafði aldrei búið þetta til áður, en uppskriftin var góð og einföld svo þeir heppnuðust ágætlega. Ef þú átt við sama vandamál að stríða og ég, átt alltof mikið af eggjarauðum eða eggjum þá mæli ég með að þú skellir í þessar dásemdir.
Byrjað er á að gera fyllinguna því það tekur tíma að kæla hana niður.
Fylling:
- 2 bollar nýmjólk
- 1/2 vanillustöng, skorið í hana miðja og skofið kornin innan úr
- 6 eggjarauður
- 2/3 bolli sykur
- 1/4 bolli kornsterkja
- 1 msk ósaltað smjör
Settu mjólkina ásamt vanillukornum í pott og hitaðu að suðu. Slökktu undir pottinum og láttu standa í 15 mín. Hrærðu saman eggjarauðurnar og sykur þangað til blandan verður ljós og létt. Bætttu því næst kornsterkjunni út í eggjablönduna og hrærðu þangað til alveg kekklaust. Settu svo 1/4 bolla af vanillumjólkinni út í og hrærðu hægt saman við, skafðu niður með hliðunum með sleikju svo allt blandist vel. Eftir það seturu sett afganginn af mjólkinni út í og blandað vel.
Settu síðan blönduna í pott, stiltu á miðlungs hita. Hrærðu stanslaust í blöndunni þangað til hún byrjar að þykkna og mynda krem.
Taktu af hellunni þegar blandan nær suðu, hrærðu aðeins lengur til þess að kæla kremið örlítið. Plastaðu kremið vel, gott er að láta filmuna snerta kremið svo það myndist ekki himna ofan á. Settu í kæli í u.þ.b. 2 tíma.
Eclair:
- 1 bolli vatn
- 113 g smjör
- 1/2 tsk salt
- 1 1/2 tsk sykur
- 1 bolli hveiti
- 3 egg + 1 í viðbót ef þarf
Hitaðu ofninn í 220°C. Settu vatnið í miðlungs til stóran pott ásamt smjörinu, saltinu og sykrinum. Hitaðu að suðu, taktu þá strax af hitanum. Settu allt hveitið út í í einu og hrærðu því saman við með tréskeið þangað til allt hveitið hefur samlagast. Settu þá deigið í hrærivélina og notaðu hnoðarann. Hrærðu svolítið í deiginu til þess að það kólni svolítið. Settu svo eitt egg í einu og skafaðu niður með hliðunum. Þegar þú ert búin að setja 3 egg út í en deigið er ennþá mjög líkt smjörbollu þá seturu eitt egg út í í viðbót, deigið á að vera þykkt en leka samt af hnoðaranum þegar þú takur hann upp úr skálinni. Settu deigið í sprautupoka með stórum stút. Sprautaðu í lengjur, hafðu 5 cm á milli hverrar lengju, sjá mynd neðar. Penslaðu eggi á hverja lengju áður en þessu er skellt í ofninn. Bakkelsið er látið vera í ofninum í 15 mín á 220°C en svo er hitinn lækkaður í 190°C í 15 mín, passaðu að opna ekki ofninn á meðan bakkelsið er inni.
Þegar bakkelsið er búið að kólna svolítið þá geriru gat á það á öðrum endanum. Settu fyllinguna í sprautupoka og sprautaðu inn í gatið ágætis magni af fyllingu svo það nái í báða endana.
Súkkulaði:
- 1/2 bolli rjómi
- 113 g suðusúkkulaði
Bræddu saman yfir vatnsbaði. Kældu þangað til súkkulaðið hefur náð réttri þykkt en það á að vera þykk fljótandi svo það leki ekki út um allt en dreifist samt vel. Settu það svo á bakkelsið.
Ég vona að þú gerir þessa yndislegu eclair’s, það er svo mikið auðveldara að gera þá heldur en uppskriftin lítur út fyrir að vera. Það er líka svo gaman að gera svona alvöru bakarísmat heima hjá sér.
Njóttu vel!
Linda fæddist þann 23. október árið 1988. Í dag er hún mamma í sambúð og með geysilegan áhuga á innanhúshönnun en áhuginn vaknaði þegar hún keypti fokhelt hús árið 2013. Verandi lífefnafræðingur hefur Linda líka mikinn áhuga á snyrtivörum og virkni þeirra. Linda er líka mikill bakari en hún bakar til að fá útrás fyrir sköpunargleðina og nýtur þess að taka fallegar myndir af afrakstrinum. Allar myndir í matarbloggfærslum eru því teknar af Lindu sjálfri og þú getur lesið meira af efni frá henni bæði hér undir notendanafninu og á mondlur.com