Mörg börn í dag eru með leiðinda dynti þegar kemur að mat og mataræði. Þau borða ekki venjulegan mat af því þeim finnst þetta ekki gott og sú setning á að duga sem allsherjar höfnun á heilnæma og góða fæðu.
…Allt verður að vera sætt eða steikt svo að það sé samþykkt sem gott í þessu lélega bragðlaukafélagi barna.
Edda Ágústa dóttir mín er meðal þeirra íslensku barna sem hafa skráð sig í félagið “Mér finnst þetta ekki gott” og gegnir jafnvel varaformannsstöðu en fyrir skemmstu ákvað ég að þar yrði breyting á. Nú stendur til að afskrá hana úr félaginu og ég er byrjuð að plotta.
Fyrsti liður í breytingarferlinu er að snúa barninu yfir í hafragrautsklúbbinn og þar með er ég ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.
Flesta morgna borða ég nefninlega útpældan hafragraut sem inniheldur t.d. möndlur, kanil, chiafræ, banana, rúsínur og sitthvað fleira gott fyrir heilsuna.
Auðvitað vil ég að blessað barnið fái það sama og því var hún dregin út í sólina einn morguninn um daginn til að smakka á kræsingunum.
Þetta vakti ekki mikla gleði eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þjáningin er mikil hjá þessu átta ára gamla barni.
Svona sat hún fyrsta morgunin með lúxusvandamálið sitt og potaði í grautinn með skeiðinni. Það varð ekki mikið eftir af honum svo restina setti ég í skál sem fór inn í ísskáp meðan mamman hugsaði sér gott til glóðarinnar.
Næsta dag tók ég restina af hafragrautnum hennar, og örlítið sem hafði orðið eftir í pottinum, og setti í stóra skál. Bætti við eggi, spelti, mjólk og lyftidufti og hrærði saman þar til úr varð deig sem er mitt á milli pönnuköku og vöffludeigs í þykkt.
Því næst var þetta steikt á pönnu svo úr urðu dýrðarinnar pönnsur sem innihéldu sitt lítið af hverju sem telst gott fyrir líkama barns sem er að vaxa úr grasi, svo ekki sé minnst á mjaðmamál mömmunnar. Tvær flugur í einu höggi.
Þetta bar ég fram með smá sýrópi og smjörva við gríðarlegan fögnuð Eddu og Vilborgar Maríu eins og sjá má á myndinni.
Hafragrauturinn sem dulbjó sig sem pönnukökur var borðaður með bestu lyst og svo aftur með kaffinu síðar um daginn.
Svona pönnsur eru dásamlegar með brunch um helgar og það tekur akkúrat enga stund að vippa þeim upp. Það besta er að þú getur notið þeirra með fullkominni samvisku og horft á barnið sporðrenna þeim, einni á eftir annari, án þess að hafa minnstu hugmynd um að það er í raun að borða hafra, chiafræ, möndlur og sitthvað fleira.
Ég hef enn ekki upplýst Eddu mína um þennan blekkingarleik en það styttist í það. Í kjölfarið vonast ég til að hún muni smátt og smátt sættast við hafragrautinn þar sem hann er jú galdurinn á bak við þessar dýrðlegu pönnsur.
Nákvæma uppskrift færðu HÉR en ég birti hana hér á Pjattinu síðasta október. Annars getur þú útbúið þessar pönnsur eftir smag og behag og auðvitað sett það sem þér finnst gott í grautinn.
Bon appetit!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.