Pavlovur eru alltaf fallegar og góðar. Mér finnst svo þægilegt að baka Pavlovur þegar ég er að fá gesti og hef ekki mikinn tíma til þess að útbúa flókinn eftirrétt eða eitthvað með kaffinu.
Uppskriftin er einföld og hráefniskostnaðurinn ekki svo mikill.
INNIHALD
8 stk eggjahvítur
400 gr sykur
1 1/2 tsk edik
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk salt
Rjómi:
4-5 dl rjómi
4 msk flórsykur
1/2 tsk vanilludropar
Fersk ber og eða ávextir til að skreyta með.
AÐFERÐ
1. Stífþeytið eggjahvítur og bætið sykrinum, saltinu, edikinu og vanilludropunum saman við og þeytið þar til að sykurinn er vel uppleystur og hægt er að hvolfa skálinni án þess að blandan hreyfist.
2. Setjið deigið hér og þar á bökunarplötu og passið að hafa góðan bökunarpappír undir. Bakið kökurnar við 120 gráður í 65 mínútur.
3. Þeytið rjómann og setjið saman við hann flórsykurinn og vanilludropana.
4. Leggið rjómann á hverja köku og skreytið svo með fallegum ávöxtum og berjum.
Verði ykkur að góðu!
Una Dögg Gudmundsdòttir er 28 àra Seltirningur sem býr nú í Vesturbæ ásamt eiginmanni og tveimur dætrum, 7 og 2 ára.
Una Dögg lauk BA prófi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands, en verandi pjattrófa inn að beini hefur hún einnig lært nagla og förðunarfræði. Una elskar að baka og elda en henni finnst best að hafa uppskriftirnar einfaldar, fljótlegar og auðvitað dásamlega góðar.