Nú má franska súkkulaðikakan fara að vara sig. Þessi þykir ekki síðri, mjúk og fín og góð tilbreyting frá þeirri frönsku.
Djúpt súkkulaðibragðið og söltuð karamellan fara einstaklega vel saman en söltuð karamella er í tísku um þessar mundir í ýmsa eftirrétti, kökur og fleira góðgæti.
Í fínustu uppskriftunum er notað ,,fleur de sel’’, sem er afbrigði af salti sem gjarnan er notað í eftirrétti en gott, gróft sjávarsalt hentar vel í karamelluna góðu.
Prófið ykkur áfram með saltmagnið. Það er ekkert varið í að hafa hana of salta og erfitt reynist að minnka saltbragðið sé það orðið yfirgnæfandi.
- 2 dl kakóduft
- 75 g smjör
- 1 ½ dl grænmetisolía, t.d. sólblóma- eða repjuolía
- 2 dl vatn
- 100 g suðusúkkulaði, grófsaxað
- 200 g sykur
- 1 egg
- 2 tsk. vanilludropar
- 3 dl hveiti
- 2 tsk. lyftiduft
- 1 ½ dl sýrður rjómi, 18%
AÐFERÐ
Bræðið smjörið við vægan hita í potti og blandið olíunni og kakóduftinu saman við. Takið af hitanum. Bætið þá súkkulaðinu og sykrinum út í og hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðið og blandan er orðin slétt. Látið blönduna kólna.
Hellið síðan í hrærivélarskál og hrærið egginu, vatninu og vanilludropunum vel saman við og sigtið hveitið og lyftiduftið út í. Hrærið loks sýrða rjómanum saman við. Smyrjið smelluform og klæðið botninn með bökunarpappír. Setjið deigið í formið og bakið við 150 gráður í 45 mínútur. Látið kökuna svo kólna vel áður en hún er tekin úr forminu.
Berið karamellusósuna fram með kökunni t.d. í rjómakönnu, þannig að hver og einn skammti sér yfir sína kökusneið. Má líka dreypa karamellusósunni yfir kökuna áður en borin fram.
Söltuð karamellusósa
- 2 dl sykur
- 3 msk. vatn
- 1 dl rjómi
- 2 msk. smjör
- ½ – 1 tsk. gróft sjávarsalt (t.d. Maldon)
Hitið sykur og vatn saman í potti við vægan hita þar til sykurinn hefur bráðnað. Hækkið þá hitann og látið malla í nokkra mínútur án þess að hræra í. Fylgist þó vel með að brenni ekki. Sírópið er tilbúið þegar það hefur þykknað og er orðið ljósbrúnt að lit. Hitið rjómann, látið sírópið renna í mjórri bunu saman við og hrærið vel í á meðan. Bætið smjörinu saman við og látið það bráðna í blöndunni. Loks er saltinu bætt út í að smekk.
Njótið!… og ekki gleyma að kíkja á nýju Facebook síðuna mína fyrir Partírétti.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.