Það er ekkert eins auðvelt og rjómaterta þegar að kemur að bakstri. Hún getur einfaldlega ekki klikkað !
Ég hef þau yndislegu forréttindi að geta bakað í vinnunni og deilt með öðrum þeim töfrum sem gerast í eldhúsinu, þar að auki get ég sloppið ágætlega með að borða allt sjálf.
Ég er samt búin að baka heldur mikið af óhollu upp á síðkastið svo að ég ætla að fara að færa mig yfir í hráfæðisbakstur, sem að mér þykir ótrúlega skemmtilegt.
Það var sunnudagur í vinnunni og mig langaði að henda í eina köku, skoðaði hvað var til og lék fingrum fram eftir því. Ég lærði eina ótrúlega skemmtilega og auðvelda leið til að búa til svampbotna og ætla ég að deila henni með ykkur, svo auðvelt að þú gætir látið börnin þín sjá um þetta.
Svampbotnaterta með súkkulaði-kókosmjöl rjóma á milli botnanna með perubitum og kirsuberjarjóma yfir alla kökuna og jarðaberjabitar yfir. Omnomnomm.
Innihald
- 4 egg
- Hveiti
- Sykur
- 2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk vanilludropar
- 750 ml rjómi
- 50 gr súkkulaði
- 50 gr kókosmjöl, gróft
- Kirsuberjasósa (eins mikið og þú vilt af henni)
- Hálfar perur í dós
- Jarðaber til skrauts
AÐFERÐ
- Hitaðu ofninn á 180°
- Taktu 3 jafn stór glös og stilltu þeim upp hlið við hlið. Brjóttu eggin í eitt glasið. Bættu við hveiti í glasið við hliðiná þar til jafn mikið er í báðum glösum. Þar næst setur þú sykur í þriðja glasið þar til jafnt er í öllum glösum.
- Þeyttu saman egg og sykur þar til létt og ljóst. Bættu svo við hveiti smátt og smátt og hrærðu saman. Þá bætiru við lyftidufti og vanilludropum.
- Þegar að blandan er tilbúin skal hella henni í tvö jafn stór smurð form og baka í 20-25 mín. Misjafnt eftir ofnum svo þú skalt bara fylgjast með.
- Á meðan að botnanir bakast er gott að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði með smá kókosolíu og hræra vel saman.
- Þegar botnarnir eru tilbúnir skaltu taka þá úr ofninum og leyfa þeim að kólna aðeins í formunum og byrja á rjómanum.
- Ég þeytti c.a. 300 ml af rjóma og bætti svo við aðeins volgu súkkulaðinu með sleif. Best er að hræra í hringi og velta rjómanum ofan á sig. Svo bætti ég við kókosmjöli. Þeytti svo restina af rjómanum og gerði það sama og áður nema með kirsuberjasósunni.
- Ég bætti bara sósunni útí þar til rjóminn var fallega bleikur og bragðaðist vel.
- Þá skal setja einn botninn á fallegan kökudisk og hella örlítið af perudjúsnum yfir báða botnanna en passa skal að setja alls ekki of mikið því þá detta þeir bara í sundur.
- Því næst skal smyrja súkkulaði-kókos rjómanum yfir og raða perunum yfir hann. Ég reif hálfu perunar í helminga og raðaði þeim þannig.
- Næsti botn fer yfir og smyrja skal kirsuberjarjómanum yfir alla kökuna. Þá er ekkert eftir nema að skera jarðaberin til helminga og raða þeim fallega yfir kökuna.
Mitt fólk var hæstánægt með þessa sunnudagsköku og ég vona að aðrir fái að njóta vel!
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!