Bláberjamuffins eru alveg ótrúlega góðar. Þegar ég fer á kaffihús í útlöndum þá er hefð fyrir því að kaupa alltaf bláberjamuffins með tvöfalda cappuccinoinum mínum og njóta vel.
Mér finnst ég því eiginlega komin til útlanda þegar ég útbý mér bláberjamuffins hér heima.
Þessar muffinskökur eru góðar í stórum fallegum formum. Toppurinn á þeim er svolítið harður sem gerir áferðina æðislega. Það verður enginn svikinn af þessum.
Bláberjamuffins:
- 1/2 bolli smjör
- 1 bolli sykur
- 2 stór egg
- 1 tsk vanilla
- 2 tsk matarsódi
- 1/4 tsk salt
- 2 bollar hveiti
- 1/2 bolli mjólk
- 2 1/2 bolli bláber, frosin eða fersk
- Smá sykur
Byrjað er á að kveikja á ofninum og hann stilltur á 190°C. Stór muffinsform eru tekin fram og þeim raðað annað hvort ofan í stóran muffinsofnbakka eða á ofnskúffu. Smjöri og sykri er hrært saman þangað til blandan verður ljós og létt. Eggjum er svo bætt út í smjörblönduna, einu í einu og hrært vel á milli. Síðan er vanilludropum, matarsóda og salti bætt í blönduna og hrært. Hveitinu er svo bætt út í og hrært varlega. Helmingnum af mjólkinni er hrært saman við deigið en þegar mjólkin hefur blandast vel er hinum helmingjum bætt út í. Að lokum eru bláberjunum bætt varlega út í með sleikju.
Deigið er sett í formin með skeið. Örlitlum sykri er stráð yfir hverja köku áður en þær fara inn í ofninn. Muffinsið er látið vera í ofninum í 15-20 mín eða þangað til kökurnar eru orðar gullin brúnar á litin.
Njótið vel!
Linda fæddist þann 23. október árið 1988. Í dag er hún mamma í sambúð og með geysilegan áhuga á innanhúshönnun en áhuginn vaknaði þegar hún keypti fokhelt hús árið 2013. Verandi lífefnafræðingur hefur Linda líka mikinn áhuga á snyrtivörum og virkni þeirra. Linda er líka mikill bakari en hún bakar til að fá útrás fyrir sköpunargleðina og nýtur þess að taka fallegar myndir af afrakstrinum. Allar myndir í matarbloggfærslum eru því teknar af Lindu sjálfri og þú getur lesið meira af efni frá henni bæði hér undir notendanafninu og á mondlur.com