Ítalir eru snillingar í matargerð, réttirnir þeirra eru tiltölulega einfaldir, guðdómlegir fyrir bragðlaukana og oftast tekst þeim að fanga augað líka!
Það er einhver seiðandi stemmning á bak við ítalska matargerð. Stemmningin getur meira að segja verið það mögnuð og fegurðin svo mikil að manni langar að borða þjónana! Ég var eitt sinn stödd á yndislegum veitingastað í Verona; Postulunum Tólf, sem er svosum ekki frásögu færandi nema það að háttsettur ráðherra ítala var þar staddur að snæða. Verandi ítali var auðvitað fjöldinn allur af lífvörðum sem fylgdu kappanum og þegar ráðherrann lauk matnum og gekk út, mynduðu strákarnir göng til að vernda hann.
Það vildi svo til að mitt borð var einmitt fyrir miðju staðarins og gat ég nú ekki annað en starað á lífvarðasveitina sem var dýrðarinnar veisla fyrir augað, mér fipaðist svo af fegurðinni að ég var hreinlega ekki með sjálfri mér.
Til að gera langa sögu stutta fór þetta þannig að ég pantaði smokkfisk í forrétt og kanínu i aðalrétt. Ég sem elska kanínur og átti meira að segja tvær á þessum tíma! Svo finnst mér smokkfiskur ógeðfelldur og myndi aldrei panta hann væri ég með sjálfri mér, staðreyndin er eflaust sú að innst inni hefði ég viljað einn ítalskan lífvörð í aðalrétt og gott rauðvinsglas með! Sem betur fer var bóndinn með því annars væri ég örugglega í uppvaskinu á Postulunum Tólf í dag.
Þetta er svona lítil saga um að vera hrifnæmur, drekka í sig fegurð og borða bæði með augum og munni.
Spaghettíréttur lífvarðanna 12 frá Verona
- Barilla spaghetti (meira en minna)
- 1 msk smjör
- Dass af Maldon salti
- 1 stk grænmetisteningur
- Ferskir sveppir
- Púrrulaukur eftir smekk
- 1 stk rauðlaukur
- 1 dós Hunts sósa með Garlic og Basil
- 1 dós Hunts paste einnig með Basil
- Nokkrar sneiðar af Parma skinku (eftir smekk)
- Ferskur hvítlaukur ( ég kýs mikinn)
Sjóddu pastað samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Gott að bæta smá smjöri út á. Það gefur æðislegt bragð. Saxaðu niður grænmetið og steiktu upp úr smá ólífuolíu. Bættu sósunum við og láttu malla rétt aðeins i pottinum. Sirka 5 mínútur á lágum hita.
Kryddaðu svo með svörtum pipar, oregano og örlitlu salti.
Þá er spaghettíinu bætt í sósuna ásamt litlum pela af rjóma, látið malla og hrært varlega i pottinum þar til allt hefur blandast vel saman. Að lokum klippi ég ferska basiliku yfir og sneiði nokkra kirsuberja tómata þegar rétturinn er kominn á diskinn. Fyrir þau sem elska ólífur þá smellpassa þær í réttinn.
Puccini Toscana rauðvínið er snilld með réttinum og ekki er verra að maula hvítlauksbrauð með og strá góðum parma osti yfir.
Buon appetito!
Dóra elskar að föndra við snittugerð en matur hefur alltaf haft mikil áhrif á hennar líf. Svo mikil að Dóra byrjar flesta morgna á að hugsa um hvað eigi að vera gott í kvöldmatinn. Hún býr á Seltjarnarnesi, á tvær æðislegar stelpur og sætasta golfara í heimi (að ólöstuðum okkar). Dóra lærði til lyfjatæknis árið 2001 en áhugamál hennar snúast um allt sem tengist mat, hreyfingu, dansi og útivist.