Ég hef bakað þessa ansi oft, sérstaklega þegar að það er ekkert til í ískápnum, því hráefnin eru ekki mörg. Þetta meistaraverk heitir Silvíukaka og ber nafnið vegna þess að þetta er uppáhalds kaka sænsku drottningarinnar, Silvíu.
Ég get verið dálítil drottning stundum og held að hún leynist í okkur öllum, líka í körlum svo þessi kaka er sannarlega fyrir alla!
Búálfurinn á heimilinu ákvað að taka sig til og stela nokkrum hlutum úr eldhúsinu. Ég baka ekkert sérlega oft heima hjá mér svo hann hefur haft nægan tíma til þess að troða vasana. Hann hefur eitthvað verið hrifin af desilítramálinu mínu og þeytaranum af hrærivélinni minni því ég gat ómögulega fundið þessi áhöld.
Hérna kemur uppskriftin í heild sinni þó að ég hafi þurft að fara “old school” á þetta og nota bolla og písk. Ég átti ekki heldur til kókosmjöl sem er venjulega sett á svo að ég ristaði kókosflögur og stráði yfir, kom æðislega vel út.
INNIHALD
- 2 egg
- 2 dl sykur
- 2 dl hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 1 dl vatn
AÐFERÐ
Ég byrja alltaf á því að taka saman öll hráefnin og skipuleggja mig. Það gerir eftirleikinn svo léttan og þægilegan.
1. Hitið ofninn á 175°
2.Hrærið egg og sykur vel saman svo að það myndist svolítið af loftbólum og þykkni aðeins
3.Bætið vatninu við og hrærið á meðan snögglega
4.Sigtið hveiti og lyftiduft útí og hrærið þar til kekkjalaust
5.Setjið deigið í smurt 22-24 cm form og bakið í um 30 mín.
Annars er aldrei hægt að treysta fullkomnlega á bökunartíma og best að fylgjast bara með t.d. stinga prjón í hana og sjá hvort eitthvað komi með prjóninum til baka.
KREM
- 75 gr smjör
- 1 eggjarauða
- 1 dl sykur
- 2 tsk vanilludropar
- Kókosmjöl eða ristaðar kókosflögur
- Dass af ást
AÐFERÐ
Á meðan kakan bakast þá er best að hefjast handa við kremið.
1.Bræðið smjörið í litlum potti við vægan hita
2.Bætið því næst sykrinum, vanilludropunum og eggjarauðunni við
3. Hrærið saman við lágan hita og reynið að bræða mest allan sykurinn saman við.
Leyfið kökunni að kólna örlítið og setjið hana á fallegan kökudisk. Gott er að setja kremið á kökuna meðan að hún er ennþá svolítið heit svo að kremið fari aðeins inní kökuna. Síðast en ekki síst að skreyta hana með kókosflögunum.
Njótið!
[heimild: ljufmeti.com]
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!