Þar sem ég er algjör bökunarfíkill er mjög erfitt að borða einungis hollt. Það safnast alltaf fyrir inn í mér þörf til þess að blanda saman innihaldsefnum og búa til eitthvað fallegt og gott.
En þar sem ég borða vanalega hollan mat finnst mér oftast í lagi að skella í eina góða köku, fá mér svo eina væna sneið.
Það er samt líka gott að kunna uppskriftir að góðum kökum sem innihalda holla fitu og engan hvítan sykur. Þá kemur þessi snickers hrákaka sterk inn. Hún er samblanda af nokkrum hrákökuuppskriftum sem ég hef fundið hér og þar á netinu og þar sem ég er alveg rosalega ánægð með hana langar mig að deila uppskriftinni með þér svo þú getir gert svona hollt gúmmulaði.
Botn:
- 1/2 bolli döðlur
- 1/2 bolli þurkaðar apríkósur
- 1 bolli fínt kókosmjöl
- 1/2 bolli möndlur
- 1/2 bolli pekanhnetur
Gott er að leggja döðlurnar og apríkósurnar í bleyti í 30 mín áður en hafist er handa, en ef þú ert eins og ég og hefur ekki alveg tíma í það, þá virkar ágætlega að sjóða þær í 2 mín. Á meðan döðlurnar og apríkósurnar eru í pottinum þá eru möndlurnar og pekan hneturnar hakkaðar fínt í matvinnsluvél, svo er kókosmjölinu blandað út í. Setjið mjölið í aðra skál og maukið döðlurnar og apríkósurnar í matvinnsluvélinni. Blandið svo mjölinu vel saman við þangað til vel samlagað. Setjið smjörpappír í smelluform eða eldfastmót og þrýstið deiginu ofan í. Skellið svo botninum í frysti.
Millilag:
- 1 dl hnetusmjör
- 1 dl möndlusmjör
- 2 msk kókosolía
- 1 msk hunang
Bræðið saman yfir vatnsbaði. Hellið blöndunni yfir botninn og setjið í frystinn.
Toppur:
- Nokkrar salthnetur
- 4 msk kókosolía
- 4 msk kakó
Dreifið nokkrum salthnetum yfir kökuna í svipaðri þykkt og hnetum er dreift í snickers súkkulaði. Bræðið kókosolíuna yfir vatnsbaði og hrærið kakóinu saman við. Hellið súkkulaðiblöndunni yfir kökuna og setjið í frysti.
Kakan ætti svo að vera tilbúin þegar hún hefur verið samanlagt 30 mín í frysti!
Linda fæddist þann 23. október árið 1988. Í dag er hún mamma í sambúð og með geysilegan áhuga á innanhúshönnun en áhuginn vaknaði þegar hún keypti fokhelt hús árið 2013. Verandi lífefnafræðingur hefur Linda líka mikinn áhuga á snyrtivörum og virkni þeirra. Linda er líka mikill bakari en hún bakar til að fá útrás fyrir sköpunargleðina og nýtur þess að taka fallegar myndir af afrakstrinum. Allar myndir í matarbloggfærslum eru því teknar af Lindu sjálfri og þú getur lesið meira af efni frá henni bæði hér undir notendanafninu og á mondlur.com