Dóttir mín varð 2 ára í lok ágúst mánaðar og þar sem að Skoppa & Skrítla eru í uppáhaldi hjá henni fannst okkur tilvalið að hafa Skoppu & Skrítlu afmælisþema.
Ekki fást neinar Skoppu & Skrítlu afmælisvörur hér á landi svo sem diskar & glös en við keyptum litríka diska og fleira og fengum svo Áberandi skiltagerð til þess að útbúa litla límmiða af Skoppu & Skrítlu og límdum sjálf á glösin sem vakti mikla lukku!
Hérna læt ég fylgja skemmtilega hugmynd að bragðgóðri & litríkri afmælisköku, sem ég skreytti í anda þeirra Skoppu & Skrítlu. Í þessa köku sem sýnd er hér á myndinni voru 8 botnar sem sagt fjórföld uppskrift og mikið af smjörkremi!!
Fiðrildin & blómin á kökunni eru ætileg og fást í Allt í köku. Svo skar ég út límmiða af Skoppu og smellti á toppinn.
Skoppandi súkkulaðikaka með Skrítlu smjörkremi
Innihald í kökunni
4 dl hveiti
2 dl sykur
1 1/2 dl smjörlíki ( brætt)
2 dl mjólk
1 1/2 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 egg
2-3 msk kakó
Innihald í kreminu
100 gr smjör ( mjúkt)
3 dl flórsykur
1 stk eggjarauða
1 msk vatn ( eftir þörfum þá, hversu þunnt krem þið viljið hafa)
1-2 tsk kókoshnetubragðefni ( þetta er val, ég kaupi gjarnan ýmis bragðefni í Bandaríkjunum og finnst skemmtilegt að bragðbæta kremin).
Aðferðir
Kökubotnarnir
Þeytið saman eggjunum og sykrinum þar til blandan verður létt og ljós í sér. Blandið öllum hráefnum saman, oft getur verið gott að sigta bæði hveitið og kakóið út í til þess að forðast að blandan verði kjekkótt. Hrærið vel saman í um 2-3 mín. Bræðið smjörlíkið í potti við vægan hita og látið aðeins kólna áður en því er helt saman við hráefnin. Smyrjið tvö hringlaga form með smjöri og hellið blöndunni jafnt í bæði formin, bakið svo við 180 gráður í um 25-30 mínútur. Passið svo að láta botnana kólna vel áður en þið setjið kremið á.
Kremið
Mikilvægt er að smjörið sé mjúkt og er gott að taka smjörið út úr ísskápnum um það bil 1-2 klst áður en kremið er búið til.
Best finnst mér að hræra smjörið eitt og sér í skál og bæta svo kókoshnetudropunum saman við eða því bragðefni sem að þið kjósið að nota t.d. vanilludropa. Því næst er flósrykrinum bætt saman við smám saman og hrært vel saman við. Eggjarauðunni er svo bætt við í lokin og allt hrært saman. Svo má meta það hvort vatnið þurfi en ég hef alltaf sett 1 msk af vatninu til að það verði aðeins meira úr kreminu.
Svo er hægt að skipta kreminu í skálar og setja mismunandi matarliti og nota hugmyndaflugið til þess að skreyta fallega.
Gangi ykkur vel og góða skoppandi skemmtun!
Una Dögg Gudmundsdòttir er 28 àra Seltirningur sem býr nú í Vesturbæ ásamt eiginmanni og tveimur dætrum, 7 og 2 ára.
Una Dögg lauk BA prófi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands, en verandi pjattrófa inn að beini hefur hún einnig lært nagla og förðunarfræði. Una elskar að baka og elda en henni finnst best að hafa uppskriftirnar einfaldar, fljótlegar og auðvitað dásamlega góðar.