Þessi gómvætandi uppskrift kemur brakandi fersk úr nýju LKL bókinni hans Gunnars Más en um hana segir Gunnar…
“Halloumiosturinn er snilldarostur og er nokkurs konar blanda af feta- og parmesanosti ef ég reyni að lýsa áferðinni. Hann er þó þéttur og saltur og hentar mjög vel til steikingar. Ég ábyrgist að þetta salat verður uppáhalds”
Ok. Við skulum prófa! Uppskriftin er fyrir 4
•• 1 poki blandað salat að eigin vali
•• ½ poki ferskt spínat
•• 225 g halloumiostur
•• 250 g fersk jarðarber, skorin niður
•• 4 vorlaukar, saxaðir smátt
•• 2 lítil avókadó, skorin niður
•• ólífuolía
•• balsamedik
•• skvetta af sítrónu- eða limesafa
•• chilikrydd, t.d. frá Himneskri Hollustu
Byrjaðu á að skera ostinn í frekar þykkar sneiðar. Steiktu ostinn í ólífuolíu á pönnu og kryddaðu hann með chilikryddinu. Farðu varlega í steikingunni því hann á það til að springa aðeins þegar hann kemur á heita pönnu og þá er hætt við olíuskvettum. Steiktu ostinn í 2–3 mínútur á hvorri hlið þar til hann er orðinn fallega brúnn.
Blandaðu salatinu saman og bættu ólífuolíu, balsamediki, vorlauk og sesamfræjum út í og blandaðu vel saman. Settu jarðarber og avókadó efst ásamt ostinum og endaðu á að dreypa svolitlum sítrónu- eða limesafa yfir.
Osturinn er próteingjafinn í þessu salati og þetta er heil máltíð en gæti einnig hentað vel sem meðlæti með kjöti eða fiski.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.