Þessi kjúklingaréttur var oft á borðum heima hjá mér þegar að ég var yngri og gekk þá undir nafninu Raggi Reykás. Aðrir gætu mögulega þekkt þennan rétt undir nöfnunum karrýkjúklingur eða kjúklingur í tómatsósu.
Skiptir ekki máli hvað þið kjósið að kalla þennan kjúkling – hann er guðdómlegur og eiginlega meira en það.
INNIHALD í Ragga Reykás:
Heill kjúklingur – hlutaður niður.
3 dl tómatsósa
3 tsk karrý
3 tsk nýmalaður svartur pipar
1 tsk salt
1 peli rjómi / eða sama magn af matreiðslurjóma (ég nota alltaf matreiðslurjómann – bumban má ekki við ekta rjóma).
AÐFERÐ
Tómatsósu og öllu kryddi er hrært saman og síðan smurt yfir kjúklinginn. Þetta fer inn í 200° heitan ofn í 30 mínútur. Þá er fatið tekið út og rjómanum hellt yfir kjúklinginn. Síðan er rétturinn eldaður í 30 mínútur í viðbót.
Raggi er bestur með hrísgrjónum og góðu salati. Mæli með að þið prófið. Einfalt, fljótlegt og ofsalega gott!
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.