Rækjukokteill golfarans – Laufléttur, brakandi ferskur rækjukokteill, kjörin sem forrétur nú eða léttur aðalréttur , hressandi augnakonfekt hvort sem fyrir matarboðið, saumaklúbbinn eða notalegt laugardagskvöld með uppáhaldinu ykkar í lífinu.
Borin fram í fallegasta glasinu í kotinu eða jólaskálinni frá ömmu, grænmetið getur verið mjög fjölbreytilegt og algjölega eftir smekk hvers og eins því sósan og rækjurnar eru aðal trixið í þessum undur ljúfa og holla kokteil. Það sem setur punktinn yfir herlegheitin eru töfrandi tónar Stans Getz í ógleymanlega laginu hans Girl from Ipanema, maður gleymir stund og stað og er komin til Argentínu einsog hendi sé veifað.
Innihald: Ferskt salat, Dögunar rækjur, rauð paprika, agúrka, hunangs melóna, jarðarber, púrrulaukur.
Sítrónusósa: 3 mtsk pítusósa, 3 mtsk sætt sinnep, dass af sítrónusafa og örlítið af salti og svörtum pipar.
Þessi dressing er yndislega frískandi og passar vel bæði með kjúkling og fiskréttum, í blálokin og til að toppa allt er steinselju stráð ljúflega yfir, ef svo sýnist er ristað brauð skorið í þríhyrning með íslensku smjöri dásemdin ein með herlegheitunum.
Dóra elskar að föndra við snittugerð en matur hefur alltaf haft mikil áhrif á hennar líf. Svo mikil að Dóra byrjar flesta morgna á að hugsa um hvað eigi að vera gott í kvöldmatinn. Hún býr á Seltjarnarnesi, á tvær æðislegar stelpur og sætasta golfara í heimi (að ólöstuðum okkar). Dóra lærði til lyfjatæknis árið 2001 en áhugamál hennar snúast um allt sem tengist mat, hreyfingu, dansi og útivist.