Á ljúfum sumardögum eru frost- og íspinnar sérlega freistandi og góðir að gæða sér á. Það er skemmtilegt að prófa sig áfram við slíka íspinnagerð, nota alls kyns ávexti, safa, jógúrt, grænmeti, kryddjurtir og annað sem manni dettur í hug, skella í form og frysta.
Þá er hentugt að grípa til þeirra þegar þorsti eða hungur sverfir að og sérlega vinsælt meðal yngstu kynslóðarinnar. Ég hef verið að leika mér með rabarbarann (enda sérlegur aðdáandi hans!) í íspinnagerðinni og kemur það æðislega vel út. Hér eru mínar tillögur:
1. Rabarbaraís með ferskri basilíku og engifer
Sjóðið ½ kg rabarbara saman með 1 lítra af vatni og 1 sm bút af engiferrót við vægan hita í um 10 mínútur. Sigtið í könnu eða pott, blandið 2-3 msk af agave-sírópi saman við, eða hunangi eða sykri, smakkið til. Saxið 2-3 msk af ferskri basilíku saman við og hellið á íspinnaform. Frystið í amk 6 klst. Látið heitt vatn renna í smá stund á íspinnaformið þegar þið ætlið að losa pinnana úr, þá losna þeir auðveldlega úr forminu.
2. Rabarbara,,rjómaís‘‘
Þessir íspinnar líkjast rjómaís en notuð er grísk jógúrt sem er fitulítil en rjómakennd og því fyrirtak í pinnanna góðu.
Sjóðið 200 g af rabarbara í 100 ml af vatni í um 5-7 mínútur eða þar til rabarbarinn mýkist aðeins. Látið mestan hitann rjúka úr og maukið í blandara eða með töfrasprota. Hrærið 12 msk af grískri jógúrt saman við 4-5 msk af agave-sírópi (eða annað sætuefni, sykur, hunang osfrv), nokkrum dropum af vanilluessence og ef til vill 1 msk af mjólk til að þynna jógúrtina. Hellið blöndunni í íspinnaformin, fyllið 2/3 hluta formsins. Setjið síðan rabarbaramaukið ofan á jógúrtblönduna og hrærið varlega í, helst með pinna eða haldinu af lítilli teskeið, og látið blandast varlega. Frystið í amk 6 klst. Látið heitt vatn renna í smá stund á íspinnaformið þegar þið ætlið að losa pinnana úr, þá losna þeir auðveldlega úr forminu. 4-6 pinnar.
3. Rabarbaraís með jarðarberjum
Sjóðið ½ kg af rabarbara í 250 ml af vatni ásamt nokkrum jarðarberjum (ferskum eða frosnum) í 5-7 mínútur eða þar til rabarbarinn er aðeins mjúkur. Takið af hitanum, látið aðeins kólna, blandið þá 2 msk af agave-sírópi saman við (eða öðru sætuefni), smakkið til.
Hellið í íspinnamót. Skerið 1-2 jarðarber í örþunnar sneiðar og setjið með hliðunum inn í mótin svo móti fyrir þeim þegar pinnarnir eru tilbúnir. Frystið í amk 6 klst. Látið heitt vatn renna í smá stund á íspinnaformið þegar þið ætlið að losa pinnana úr, þá losna þeir auðveldlega úr forminu.
Ráð: Ekki stútfylla íspinnaformin áður en þau eru sett í frysti því þegar vökvinn eða blöndurnar frjósa tútna þær aðeins og fylla alveg út í formin.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.