Ég bakaði þessa á vinnustaðnum um daginn og varð vægast sagt vinsælli þrátt fyrir miklar vinsældir fyrir ( ég baka svo oft í vinnunni).
Ég elska döðlur, pecanhnetur og hvað þá karamellusósu! Þegar að ég datt inná þessa uppskrift á netinu þá varð ég að gera hana.
Þessi kaka er fyrir alvöru sælkera sem vilja samt gera vel við sig án þess að missa það alveg í óhollustunni. Hún inniheldur hrásykur í stað venjulegs sykurs og ekkert hveiti. Loft er vanmetið hráefni eins fáránlega og það hljómar en þá gera þeyttu eggjahvítunar svo mikið.
Mér finnst sjálfri langbest að taka saman öll hráefni og vigta og skipuleggja mig aðeins áður en ég hefst handa enda með adhd á vægu stigi og þá gengur allt svo miklu betur. Ég var alls ekki lengi að henda þessari saman og get lofað því að þú verður vinsæl í hvaða boði sem er ef þú gleður gesti með þessu góðgæti.
INNIHALD
• 80 gr. Döðlur klipptar eða skornar í litla bita (Þessi skammtur er maukaður)
• ½ dl. Vatn
• 5 eggjahvítur
• 70 gr. Döðlur klipptar eða skornar í litla bita (Þessi skammtur fer í deigið)
• 90 gr. 70 % Súkkulaði, saxað
• 85 gr. Möndluflögur, ristaðar á pönnu og malaðar (þær eru bragðmeiri ristaðar)
Aðferð
1. Hita ofninn í 150°C.
2. Sjóðið 80 gr af döðlum og ½ dl af vatni saman í 2-3 mínútur og maukið síðan saman í matvinnsluvél. Kælið inní ísskáp.
3. Þeytið eggjahvítunar alveg stífar. Gott er að vera búin að taka eggin út alveg í byrjun því það er best að vinna með hráefni sem eru við stofuhita, þá sérstaklega egg, eins og í þessari uppskrift þegar að það á að blanda saman stífum hvítum og yndislega döðlumaukinu.
4. Takið smávegis af eggjahvítunum og blandið varlega saman við döðlumaukið.
5. Blandið restinni af döðlumaukinu og eggjahvítunum varlega saman. Þetta er gert í tvennu lagi til að halda loftinu í eggjahvítunum.
6. Bætið söxuðum döðlum, möndlumjöli og súkkulaði varlega saman við eggjahvítublönduna. Hellið deiginu í smurt eða pappírsklætt smelluform, 22-24 cm.
7. Bakið í miðjum ofni í 20 mín.
8. Kælið kökuna aðeins áður en hún er tekin úr forminu. Ekki slökkva á ofninum strax.
Ofan á :
• 90 gr. Hrásykur
• ¾ dl. Rjómi
• 180-200 gr. Pecanhnetur
1. Ristið pecanhneturnar í ofni við 180°C.
2. Sjóðið hrásykur og rjóma svo að úr verði karamella.
3. Raðið hnetunum fallega á kökuna og hellið svo sósunni yfir.
Svo er bara að bera þessa dásemd fram með bros á vör og njóta fyrir allann peninginn!
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!