Ég reyni nú oftast að borða frekar hollan og næringarríkan mat en ætla þó ekki að ljúga að ykkur, lesendur góðir, og halda því fram að ég borði hollt allan daginn, alla daga, alltaf. Hver nennir því hvort sem er?
Auðvitað langar mann stundum í eitthvað sem er bara alveg ólöglega gott en ekki endilega ólöglega hollt. Þessvegna er þessi ólöglega góði kjúllaréttur alveg rosalega vinsæll á mínu heimili á góðu sukkkvöldi!
Uppskriftin er miðuð við svona 5-6 manns. Það er auðvitað ekkert mál að deila í tölurnar til að fá minni uppskrift fyrir færri, nú eða búa bara til mikið af kjúllanum til að eiga í hádegismat daginn eftir. Ég lofa því að afgangarnir munu klárast, tíu fingur upp til Guðs og engin lygaramerki tekin með.
Þessi uppskrift er mjög einföld, fljótleg og ódýr, og sérlega bragðgóð. Klárlega allt sem við nútímafólkið óskum okkur.
INNIHALD
- 300gr majones (létt majones ef þú vilt reyna að halda þessu í hollari kantinum)
- 200gr rifinn ostur
- brauðrasp – eftir hentugleika og smekk
- 1 kg kjúklingabringur
AÐFERÐ
- Hitaðu ofninn í 200°
- Settu kjúklingabringurnar í eldfast mót
- Helltu rifna ostinum út í majonesið og blandaðu vel saman þannig það sé ekki of fljótandi (eins konar klístur)
- berðu ostamajonesklístrið (hljómar vel, ég veit) á kjúklingabringurnar þannig það þeki þær
- stráðu brauðraspi yfir, nógu mikið til að það hylji bringurnar vel
- settu bringurnar inn í ofn og leyfðu þeim að eldast í ca 30mín eða þar til kjötið er fulleldað, raspið gullið og osturinn bráðinn
Með þessu klikkar ekki að hafa sætar kartöflur og gott salat.
Svei mér þá, ég held ég verði nú bara að elda þennan rétt annað kvöld!
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.