Möndlumjólk með vanillu og kanil. Svo ómótstæðilega girnilegt og gott!
Mér þykir möndlumjólk alveg ægilega góð í allskonar matargerð. Ég hef til dæmis prófað að nota í grjónagraut, boost og bakstur. Þar sem ég reyni núna að borða allt eins ferskt og hægt er og forðast aukaefni þá tók ég upp á því að búa til mína eigin möndlumjólk.
Flestar sem fást úti í búð eru bara alls ekki nógu góðar finnst mér, auk þess að þær innihalda eiginlega alltaf sykur af einhverju tagi. Hér kemur einföld uppskrift af möndlumjólk sem mér þykir alveg ægilega góð 🍶 Það eina sem maður þarf í þetta er: Möndlur, Vatn, Kanill, Vanilla.
Aðferð:
1.
Ég tek heilan pakka af möndlum og læt liggja í bleyti yfir nótt. Daginn eftir skola ég þær í sigti og set í Nutribullet glas ásamt vatni. Ég próf mig áfram með þykktina, ekki of þunnt og ekki of þykkt, bæti meira vatni eftir þörfum. Set meira vatn en er á myndinni. Svo er þessu skellt af stað og blandað þar til áferðin er orðin fín.
2.
Eftir þetta skelli ég öllu mixinu í nælon sokk yfir skál og kreisti mjólkina úr sokknum. Þetta getur orðið dálítið subbulegt en það gerir ekkert til 🙂
3.
Þegar mjólkin er öll komin í skálina þá bæti ég við kanil og vanillu dufti, en ég nota Bourbon Vanilla. Svo er þetta hrært saman með písk og voilá!
Æðislega gott að fá sér bara smá í glas, eða út í kaffi, eða hvernig sem er.
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður