Þið lásuð rétt. Karamella. Beikon. Poppkorn. Þetta er stórkostlega undarlegt. Ég játa. En bragðið – almáttugur. Ég myndi alveg setjast í fullt baðkar af þessari dýrð. Með Bubba helst. Auðvitað.
Kryddað karamellubeikonpopp
5-6 beikonsneiðar.
Einn poki Stjörnupopp. Eða poki af örbylgjupoppi. Eða venjulegu.
1 og 1/2 teskeið matarsódi.
3/4 teskeið Cayenne pipar.
3 bollar af sykri.
3 matskeiðar smjör.
2 teskeiðar sjávarsalt.
1/2 bolli af vatni.
Beikonið er sett í ofn á 200° í 15-20 mínútur.
Eftir dvölina í ofninum er beikonið lagt á pappir til þerris. Mér finnst eldhúspappír óþarfa lúxus og kaupi aldrei slíkan munað. Hinsvegar finnst mér ekkert að því að versla servíettur í allskonar útgáfum. Gáfulegt? Nei. En þær eru bara svo miklu gleðilegri.
Beikonið er skorið í teninga. Það reyndist mér agalega erfitt að vera ekki með lúkurnar stöðugt í skálinni. Helvítis beikon.
Cayenne pipar og matarsóda er blandað saman í litla skál.
Sykurinn, smjörið, saltið og vatnið fer á pönnu og látið malla við háan hita í góðar tíu mínútur. Eða þangað til mixtúran verður ljósbrún.
Cayenne piparnum og matarsódanum er hrært varlega saman við. Þá freyðir svolítið í þessu. En verið óhrædd, það á víst að gerast. Beikonbitunum er skellt saman við strax þar á eftir.
Poppið þarf að standa klárt á ofnplötu og karamellubeikonblöndunni sullað vel og vandlega yfir.
Hræra. Láta kólna.
Stórundarlegt. Samt svo dásamlega ljúffengt. Ég hvet ykkur til að prófa. Getið gert það í leyni líka – ef þíð viljið ekki láta sjá til ykkar í svona furðulegum framkvæmdum.
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.