Væri ekki smart að mæta með nokkrar fallega innpakkaðar karamellur og rétta manneskju sem þér þykir vænt um, nú eða ef þú ert að fara í veislu að rétta gestgjafanum nokkrar sætar?
Ég hef alltaf verið miklu meiri karamellu manneskja heldur en súkkulaði svo það var komin tími á að prufa að búa til mínar eigin og vá ! Það var fáránlega auðvelt að búa þær til og þær voru æðislega góðar.
Það kom mér á óvart hversu auðvelt er að búa til karamellur sérstaklega þar sem ég var ekki með hitamæli, maður þarf bara dálítið að þreifa sig áfram og sirka. Ég sá einhverstaðar að þegar þú heldur að karamellan sé tilbúin að setja kalt vatn í glas og dýfa teskeið af karamellu ofan í. Ef hún er tilbúin þá ættiru að geta rúllað kúlu úr karamellunni.
Þegar að ég var búin að skera alla karamelluna í fallega bita stóðu endarnir eftir og voru þeir ekki eins fallegir. Vegna þess hve karamellan var mjúk hjá mér þá gat ég rúllað restinni í litlar kúlur. Hitaði svo 70% súkkulaði yfir vatnsbaði með kókosolíu og leyfði því að kólna aðeins, stakk svo tannstönglum í kúlunar og dýfði þeim í súkkulaðið. Leyfði að þorna inn í ísskáp og stráði svo salti yfir, algjört nammi! Note to self og ykkar, aldrei stinga heitum, bráðnuðum sykri uppí þig, aldrei !
Uppskrift
- 1/2 bolli vatn
- 1 bolli sýróp
- 3 bollar sykur
- 2 bollar rjómi
- 140 gr. ósaltað smjör
- 2 tsk gróft salt
- 1 tsk vanilludropar
Aðferð
- Setja saman sykur, vatn og sýróp í pott og sjóða þar til bubblur byrja að myndast. Sjóða áfram þar til blandan verður fallega gyllt. Athuga að ekki má hræra í blöndunni heldur skal snúa pottinum ef þarf að blanda betur saman.
- Á meðan að sykurblandan bubblar skal setja saman í annan pott rjóma, salt og smjör. Hér skal hita þar til rétt fer að sjóða.
- Þegar að sykurblandan er orðin fallega gyllt skal taka hana af hitanum og blanda varlega rjómablöndunni út í. Það gæti farið að freyða hressilega svo þú skalt hella rólega og litlu í einu. Hræra svo vanilludropum saman við með viðarsleif.
- Nú skal setja blönduna aftur yfir hita og láta bubbla yfir aðeins meira en miðlungs hita í c.a. 30 mín. Eins og ég sagði hér að ofan að þá notaði ég ekki hitamæli sem væri í raun best að gera en fylgdist bara vel með og hrærði reglulega í. Mín var ofur mjúk eins og ég vildi hafa hana en ef þú vilt stífari karamellur þá þarftu að leyfa blöndunni að bubbla svolítið lengur.
- Þegar að þér þykir blandan orðin hæfilega þykk þá skaltu hella henni í pappírsklætt form (ég notaði bara eldfast mót) og skella henni inn í ísskáp. Þegar hún hefur stífnað, sem gæti tekið nokkra klukkutíma, þá skal strá salti yfir, skera í bita og pakka í sellófan eða bara bökunarpappír og brava !
Ég átti það ekki til en ef þú átt til lakkríssalt þá væri það pottþétt fáránlega gott !
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!