Nú þegar hausta tekur hafa margir snúið við blaðinu og breytt yfir í heilsusamlegri lífstíl.
Þetta kjúklingasalat ætti að henta öllum þeim sem vilja hvíla grillsósurnar og ísbíltúrana en þess í stað temja sér að elda hollan en jafnframt bragðgóðan mat.
INNIHALD
4 kjúklingabringur
SALAT
- 250 gr. kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
- 1/2 agúrka, afhýdd og skorin í litla bita
- 250 gr. Veislusalat, gróft saxað
- 1 avakadó, skorin í litla bita
- Handfylli af svörtum ólívum
DRESSING
- 1 tsk. Dijon sinnep
- 2 tsk. epaledik
- 3 tsk. ólífuolía
- Salt og pipar
MARINERING
- Sítrónubörkur, raspaður af lítilli sítrónu
- Lúka af steinselju, söxuð
- 1 stk. hvítlausrif, marið
- 2 msk. ólífuolía
- Salt og pipar
AÐFERÐ
Blandið saman hráefnum í marineringuna. Takið kjúklingabringur, kljúfið þær og nuddið marineringunni bæði inn í bringuna og utan á hana einnig. Látið liggja í kæli í a.m.k 30 mínútur. Grillið síðan bringurnar í 3-4 mínútur á hvorri hlið eða þar til þær eru tilbúnar. Skerið bringurnar því næst í sneiðar og setjið til hliðar. Skerið grænmetið og blandið saman í stórri skál. Blandið saman dressingunni og hellið yfir salatið. Leggið loks kjúklinasneiðarnar ofan á og berið fram.
Auðveldlega má bæta við salatið brauðteningum, mozzarella osti, ristuðum hnetum og þess háttar en þar af leiðandi lækkar hollustustuðullinn svo um munar. Það er því gott að fylgjast með þessum ljúffengu og jafnframt ekki-svo-hollu viðbótum og vera á varðbergi gagnvart magninu. Allt er þó gott í hófi.
Í salatinu má finna prótein, holla fitu og flókin kolvetni sem gefa okkur orku til að takast á við markmið haustins. Njótið vel!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.