Í síðustu viku kom út ein flottasta matreiðslubók sem sést hefur á landinu og hún er líka mjög kærkomin.
Bókin heitir Heilsuréttir Fjölskyldunnar og er eftir Berglindi Sigmarsdóttur en hún er fjögurra barna móðir með mikinn áhuga á heilsu og matargerð. Í bókinni gefur hún okkur ótal uppskriftir og bendir okkur um leið á hvernig einfalt sé að heilsuvæða ekki bara okkur sjálfar heldur alla fjölskylduna í leiðinni. Hvernig eigi að hvetja krakkana til að borða hollari mat og hvernig hægt er að vinna bug á ákveðnum vandamálum með breyttu mataræði. Berglindi til halds og trausts við gerð bókarinnar var eiginmaður hennar, landsliðskokkurinn Sigurður Gíslason og útkoman er einhver sú flottasta matreiðslubók sem Pjattrófur hafa séð.
Kíktu á þessa næst þegar þú átt leið í bókabúð!
Hér er ein af ótal girnilegum uppskriftum úr bókinnni…
Kjúklingasalat með gráfíkjum, fetaosti og heitum pekanhnetum fyrir fjóra:
4 kjúklingabringur
MARINERING
2 msk. hunang
4 msk. balsamikedik
4 msk. jómfrúarólífuolía (extra virgin olive oil)
3 hvítlauksgeirar, pressaðir
½ rauðlaukur, fínt saxaður
2 dl þurrkaðar gráfíkjur
Aðferð:
1. Hrærið þessu vel saman og hellið yfir kjúklingabringur í eldföstu móti.
2. Skerið stilkana af gráfíkjunum og hverja fíkju í 4-6 bita. Blandið
saman við og látið standa í um 2 klukkustundir.
3. Setjið mótið í ofn og bakið í 20 mínútur við 180°C. Snúið
kjúklingabringunum eftir 10 mínútur. Prófið að skera í bringurnar áður
en þið takið þær út til að fá úr því skorið að þær séu fulleldaðar.
SALAT
1 pk. plómutómatar, helst íslenskir
1 rauð paprika, skorin í lengjur og svo til helminga
1 avókadó, saxað í teninga
1 krukka fetaostur, 250 gr
1 poki klettasalat
1 poki blandað salat
100 gr pekanhnetur, ristaðar á pönnu eða í ofni.
Samsetning:
1. Blandið öllu salati saman.
2. Skerið kjúklingabringur í hæfilega bita og blandið saman við salatið.
3. Dreifið að síðustu ristuðum pekanhnetum yfir.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.