Ég var alveg búin að fá nóg af þessari flensu og endanlausu sjálfsvorkunnar nammi sem ég fann svo ekki einu sinni bragð af vegna kvefs.
Svo ég hætti ruglinu, bretti upp ermar og tók til grænmetið sem var til inní ísskáp. Ákvað að nú skyldi ég búa til pottrétt, veikindabanann.
Hann yrði stútfullur af kryddi og nógu sterku svo hann myndi nú pottþétt reka kvefið á brott.
Reyndar er ég pínu aumingi þegar það kemur að sterku svo ef þú ert algjör fagmaður þá notaru auðvitað sterkara krydd.
Þetta er mjög stór uppskrift og alveg tilvalið að hita upp daginn eftir, jafnvel frysta fyrir næstu flensu.
Ég tileinka öllum veikindapésum þennan pottrétt og vona að allir verði sem hressastir sem fyrst!
Innihald
- 2 msk kókosolía
- 1 rauðlaukur
- 3 rauð chili
- 1 meðalstór sæt kartafla
- 1 gulrófa
- 3 stikla sellerí
- 1 lítið brokkolíhöfuð
- 1 bolli brúnar linsubaunir (má nota aðrar tegundir en ath. mismunandi suðutíma)
- 1 dós sætar maísbaunir (þarf ekki endilega)
- 1 dós kókosmjólk
- 3 dl maukaðir tómatar
- 700 ml vatn
Krydd
2 msk grænmetiskraftur (ég notaði duft frá duran)
1/4 coriander malaðan
1/2 kanill
1 tsk karrí
1/2 tsk túrmenic
1/4 tsk reykt papríka
1 tsk tandoori paste að eigin vali
Svartur pipar og sjávarsalt eftir smekk
Aðferð
- Langbest er að vera búin að skera allt grænmeti niður og taka til allt sem þarf í réttinn.
- Skerið laukinn smátt og mýkið hann í kókosolíunni, alls ekki lengi. Passa að potturinn sé nógu stór.
- Bætið svo við tiltölulega smátt söxuðu chiliinu útí með fræjunum.
- Bætið við restinni af grænmetinu, sætu kartöflunni, gulrófunni, selleríinu og brokkolíinu. Kryddið.
- Bætið því næst vatninu við og látið malla í rúmlega hálftíma. Passa að hafa ekki of mikinn hita heldur þannig að það rétt sjóði.
- Hreinsið linsubaunirnar mjög vel og bætið við.
- Því næst fara tómatarnir útí ásamt kókosmjólkinni. Látið þetta malla í annað hálftíma. Ef tími og aðstæður leyfa þá er auðvitað mjög gott að láta réttinn malla á lágum hita yfir allan daginn og hækka svo hitann undir lokin en það er bara algjör lúxus, hann er mjööög góður þrátt fyrir það. Svo toppaði ég réttinn með alfalfaspírum til að hámarka hollustuna.
Get lofað að þessi pottréttur hressir, bætir og kætir!
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!