Hvað er ljúffengara á fallegum sumardegi en unaðslegt humarsalat? Stútfullt af brakandi ferskum salatlaufum og ávöxtum og dásamlegri hvítlauks- og sítrónudressingu er þetta máltíð sem kyndir undir sanna sumarstemningu og leikur við bragðlaukana.
Nú er um að gera að nota blíðviðrisdagana sem framundan eru, gera vel við sig og njóta humarsalats sumarsins.
Uppskriftin er fyrir fjóra til sex.
- 1 kg humar, án skeljar
- klípa af smjöri
- 3-4 hvítlauksrif, smátt söxuð
- 2 msk. timjan og/eða steinselja, saxað
- 1 avókadó
- 1 mangó
- melónubitar (helst cantaloupe, appelsínugult kjöt)
- grænt salat, t.d. klettasalat, spínat
- graslaukur
- handfylli bláber
- salt og grófmalaður pipar
Hitið hvítlaukinn í smjörinu á pönnu og bætið síðan timjani og/eða steinselju út á og síðan humrinum. Eldið humarinn í nokkrar mínútur og takið af hitanum, saltið og piprið. Skerið avókadó, mangó og melónu í fallega bita. Setjið salatið í stóra skál og raðið ávöxtunum fallega ofan á. Bætið humrinum ofan á (en síið soðið fyrst af), klippið graslauk yfir og sáldrið bláberjum ofan á í lokin. Dreypið ríkulega af dressingunni yfir allt þegar salatið er borið fram. Gott að hafa hvítlauksbrauð með.
Dressing:
- 3 msk. ólífuolía
- 3 msk. sítrónusafi
- 1 tsk. dijon sinnep
- 3 hvítlauksrif, marin
- 1 -2 msk. saxað timjan og/eða steinselja
- salt og grófmalaður pipar
Hráefnið sett í skál og allt hrært vel saman með gaffli.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.