Það getur alveg gert gæfumuninn að eiga gott millimál til að grípa í yfir daginn.
Þetta hrökkbrauð smakkast vel, er frábært með kaffinu, í morgunmat eða nesti hvenær sem er yfir daginn. Hefur góð áhrif á meltinguna og er flottur valkostur í staðinn fyrir venjulegt brauð. Settu kotasælu og gúrku eða annað gott álegg á þetta hrökkbrauð og njóttu í botn. Auðvelt og fljótlegt að útbúa.
INNIHALD
1¾ dl spelti
½ dl gróft haframjöl
½ dl graskersfræ
½ dl hörfræ
½ dl sesamfræ
½ dl sólblómafræ
½-¾ teskeið fínt sjávarsalt
1 dl vatn
2 matskeiðar (30 ml) góð olía
AÐFERÐ
Blandið öllu hráefninu saman í skál og hrærið með sleif eða sleikju þar til þið hafið linan massa.
Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og setjið deigið á pappírinn, setjið því næst bökunarpappír yfir deigið og fletjið það út með kökukefli (þið getið svo lagað endana með fingrunum ef þið þurfið).
Skerið deigið í þá stærð sem þið viljið hafa hrökkbrauðið (ég nota pizzaskera og svo rétt aðeins sting ég í hverja sneið með gaffli)
Bakið í blástursofni við 200°C í 15-20 mínútur, fer eftir því hversu dökkt og stökkt þið viljið hafa hrökkbrauðið (ég baka það í 20 mínútur).
Geymið hrökkbrauðið í loftþéttu boxi svo það verði ekki seigt og njótið vel.
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.