Ferskur lax er eitt uppáhaldshráefnið mitt og finnst mér hann langbestur mjög létt eldaður og helst hrár. Lax er frábær í alls kyns salöt, ofnrétti, í sushi auðvitað og svo mætti lengi telja, nánast í hvað sem er.
Oftar en ekki er einfaldleikinn bestur og fer vel með þessu dásamlega hráefni. Hér er uppskrift að einföldum en afar ljúffengum laxarétti sem sómir sér vel sem forréttur, smáréttur eða aðalréttur með þá kannski góðu brauði og salati.
INNIHALD
- 450 g ferskur lax, skorinn í teninga
- 1 ½ msk. sítrónusafi
- 1 ½ msk. ólífuolía ( eða t.d. vínberjasteinaolía sem er mjög hlutlaus og góð olía)
- ½ msk. sesamolía
- salt og grófmalaður pipar og/eða t.d. sítrónupipar
- ½ gul paprika
- ½ rauð paprika
Ferskar kryddjurtir, sbr. graslauk, sítrónumelissu og steinselju (gjarnan mætti nota kóríander og eða myndu, bara það sem hendi er næst).
AÐFERÐ
Hrærið sítrónusafa og olíu saman í lítilli skál og kryddið með salti og pipar að smekk.
Hellið yfir laxabitana og veltið þeim varlega upp úr leginum. Geymið, helst í kæli, í 10-15 mínútur. Saxið á meðan paprikur eða það grænmeti og kryddjurtir sem þið notið.
Hellið síðan leginum af fiskinum og blandið paprikum og kryddjurtum saman við.
Berið fram og njótið í góðum félagsskap!
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.