Hún Guðbjörg Finnsdóttir íþróttakennari hjá Hreyfingu er mikill snillingur, bæði í ræktinni og matargerð. Hún hristir dýrðlegar og heilsusamlegar uppskriftir fram úr erminni eins og töfrakona og hver er annari ljúffengari.
Hér er girnileg uppskrift fyrir helgina að mexíkóskum kjúklingarétti, tilvalið á morgun eða á laugardag. Það besta er líka að þú getur notið réttarins með mjög góðri samvisku þar sem hann er hollur og mátulega hitaeiningaríkur.
2 msk. olífuolía
1 rauðlaukur – saxaður
3 hvítlauksrif
2-3 ferskir chilipipar fræhreinsaðir og fínt saxaðir
1 msk ferskur koriander (eða koriander frá Pottagöldrum)
1 dós niðursoðnir tómatar í bitum
2 dósir tómat puré
Kjúklingabringur í bitum, (taka skinnið af) eða heill kjúklingur og þá rifinn niður.
Cheddar ostur
500 gr. kotasæla
6-8 heilveiti tortillur
AÐFERÐ
Stilla ofn á 200 C.
Steikja rauðlauk, chilipipar og hvítlauk. Bæta tómat út í. Nýmalaður pipar yfir.
Blanda saman kjúklingabitum, kotasælu og koriander.
Setja 2-3 sneiðar af cheddar osti á hverja tortilluköku og kjúklingablöndunni síðan bætt ofaná.
Rúlla upp og setja í eldfast mót.
Hella tómatblöndu yfir tortillurnar.
Álpappír yfir og baka í 30 mín og síðan í 15 mín. án álpappírs og setja þá ost ofaná – samtals 45 mín.
Borið fram með létt sýrðum rjóma, hýðis hrísgrjónum og salati.
Lárperumauk
Sumar eru líka sólgnar í guacamole, eða lárperumauk, sem fer afar vel með öllum mexíkóskum mat.
Hér er girnileg uppskrift fengin að láni hjá Cafe Sigrún:
1 lítill hvítlauksgeiri, saxaður eða maukaður
1 rauður chilipipar, fræhreinsaður og saxaður fínt
1 vorlaukur (þessir löngu og mjóu laukar), allt nema blöðin notuð, sneiddur í þunnar sneiðar.
0,25 tsk cumin (ekki kúmen). Má sleppa
Safi úr 1 límónu
1 meðalstórt, vel þroskað avocado, afhýtt og steinn fjarlægður
0,25 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
AÐFERÐ
Afhýðið hvítlauk og maukið eða saxið smátt.
Skerið piparinn eftir endilöngu og fræhreinsið hann (gott að vera í hönskum). Saxið mjög smátt.
Sneiðið vorlaukinn í þunnar sneiðar.
Blandið saman hvítlauk, chilli, vorlauk, cumin og salti ásamt límónusafanum í stóra skál.
Afhýðið avocadoið, fjarlægið steininn og maukið með gaffli. Blandið.
Sumum finnst gott að hafa smávegis af grófum bitum. Setjið plast yfir skálina og setjið hana inn í ísskáp ef á að geyma guacamoleið eitthvað.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.