Hérna kemur uppskrift af góðum og hollum bollum, ég geri þessar gjarnan um helgar í stað þess að fara í bakarí og kaupa brauð og rúnstykki sem fer ekki sérlega vel í maga.
Upsskriftin er afar einföld og er einnig skemmtileg þar sem að hver og einn getur sett sín uppáhaldasfræ með í uppskriftina.
Innihald bollur:
2.dl fimmkornablanda (eða þau fræ sem þér þykja góð)
1.bréf þurrger
1 og 1/2 dl volg mjólk
1.dl ab mjólk
4.msk ólífuolía
1/2tsk salt
4.dl heilhveiti
2.dl spelt (fínt eða gróft er val)
Aðferð bollur:
1. Hrærið saman geri og volgri mjólk.
2. Bætið þurrefnum smátt saman við.
3. Hnoðið vel saman látið hefast í um 40 mínútur.
4. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og hitið ofninn í 200 gráður.
5. Gerið um 15 stk meðal stórar kúlur úr deiginu og setjið á plötuna.
6. Smyrjið bollurnar að ofan með eggi og stráið yfir t.d. graskersfræum eða einhverjum sem hentar.
7. Bakist við 200 gráður í um 10 mínútur.
Láttu bollurnar standa og kólna í smá stund áður en þú berð þær fram. Þær eru dásamlegar með smjöri sem bráðnar og osti yfir. Munu alveg slá í gegn! Þú verður að prófa.
Una Dögg Gudmundsdòttir er 28 àra Seltirningur sem býr nú í Vesturbæ ásamt eiginmanni og tveimur dætrum, 7 og 2 ára.
Una Dögg lauk BA prófi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands, en verandi pjattrófa inn að beini hefur hún einnig lært nagla og förðunarfræði. Una elskar að baka og elda en henni finnst best að hafa uppskriftirnar einfaldar, fljótlegar og auðvitað dásamlega góðar.