Hver elskar ekki gulrótaköku? Þessi sæta kaka með rjómaostakreminu sem við öll þekkjum þarf alls ekki að vera svo óholl!
Þessi uppskrift inniheldur engan hvítann sykur heldur er notast við vel þroskaða banana og döðlur til að gefa sætu. Hér finnurðu heldur ekkert smjör, í staðinn er notuð sólblómaolía til að gera kökuna mjúka. Næringarlitla hvíta hveitið er heldur ekki að finna hér en í staðinn er notað heilhveiti.
Það besta við þetta alls saman er samt bragðið því hún gefur upprunalegu óhollu kökunni ekki sentímeter eftir, ég lofa því!
Gulrótakaka
INNIHALD
3 egg
2 vel þroskaðir bananar
15 ferskar döðlur (án steina)
6 msk sólblómaolía
1 bolli heilhveiti
1 ½ tsk matarsódi
3 tsk kanill
½ tsk múskat
½ tsk kardimommur
3-4 gulrætur (miðstærð, rifnar niður)
½ bolli kókosflögur
1/2 bolli rúsínur (má sleppa)
AÐFERÐ
Byrjað er á að stilla ofninn á 170°C. Bananar, döðlurnar og olían er sett saman í matvinnsluvél og látið ganga þangað til góð kekklaus blanda hefur myndast. Egg eru hrærð saman í skál. Í aðra skál er sett hveiti, matarsódi, kanill, múskat og kardimommur. Allt hrært saman og sigtað ofan í eggjablönduna. Bananablöndunni er bætt út í og allt hrært vel saman. Gulrætur eru rifnar gróflega niður og sett út í blönduna ásamt kókosmjölinu og rúsínunum.
Deigið er sett í kökuform, ég notaðist við smelluform sem er 18 cm í þvermál. Kakan er svo látin bakast í 45 mín. Gott að er að stinga hníf ofan í kökuna áður en hún er tekin út til þess að fullvissa sig um að hún sé tilbúin.
krem
400 g rjómaostur
6 msk hunang
1/2 límona
1 dl heslihnetur (má sleppa)
Allt hrært saman í skál þangað til kekklaus og góð blanda hefur myndast.
Kakan er skorin í tvennt til þess að gera hana tveggjalaga. Neðra lagið er sett á kökudisk og svo 1/3 af kreminu sett á kökubotninn. Efra lagið er lagt ofan á og restin af kreminu borið á kökuna. Kakan er að lokum skreytt með heslihnetum. Njótið!
Linda fæddist þann 23. október árið 1988. Í dag er hún mamma í sambúð og með geysilegan áhuga á innanhúshönnun en áhuginn vaknaði þegar hún keypti fokhelt hús árið 2013. Verandi lífefnafræðingur hefur Linda líka mikinn áhuga á snyrtivörum og virkni þeirra. Linda er líka mikill bakari en hún bakar til að fá útrás fyrir sköpunargleðina og nýtur þess að taka fallegar myndir af afrakstrinum. Allar myndir í matarbloggfærslum eru því teknar af Lindu sjálfri og þú getur lesið meira af efni frá henni bæði hér undir notendanafninu og á mondlur.com