Fersk basilíka og rabarbari fara mjög vel saman. Nú fer hver að verða síðastur að nýta rabarbarann úr garðinum, nema önnur uppskera sumarsins sé á leiðinni.
Hérna er uppskrift sem ég gerði og birti í byrjun sumars að ómótstæðilegum rabarbaramúffum en hjónabandssæla er alltaf vel þegin á kaffiborðið og rabarbarasultan er auðvitað nauðsynleg í henni.
En hvernig væri að ,,poppa‘‘ svolítið upp hjónabandssælu fjölskyldunnar og bæta ferskri basilíku í hana? Ég mæli með því og fer magnið af basilíkunni eftir smekk. Mér finnst reyndar gott að nota svolítið mikið af henni!
Flestir eiga uppskrift að gömlu, góðu hjónabandssælunni úr hveiti, sykri, haframjöli og smjörlíki en hérna ætla ég að gefa uppskrift að bráðhollri útgáfu þar sem spelt, agavesíróp og kókosolía kemur í stað þessara hefðbundnu hráefna. Og basilíkan góða fær gott svigrúm! Brilljant með helgarkaffinu.
- 120 g speltmjöl, fínmalað
- 150 g haframjöl
- 1 tsk. matarsódi
- 1 tsk. kanill
- salt á hnífsoddi
- 1 dl kókosolía, brædd
- 1 dl agavesíróp
- smá mjólk, eftir þörfum
- fersk basilíka, að smekk
Blandið þurrefnum vel saman og hrærið síðan olíu og sírópi út í. Bætið mjólk í deigið eftir þörfum þar til blandan er orðin hæfilega blaut. Setjið síðan 2/3 hluta deigsins í eldfast mót eða bökunarform og þjappið deiginu þar ofan í. Smyrjið rabarabarasultu og dreifið ferskri basilíku ofan á, að smekk. Myljið síðan afganginn af deiginu yfir allt og bakið við 180 gráður í 30 mínútur.
Rabarabarasultan sem ég geri stundum og ég notaði í þessa köku er líka á mjög heilsusamlegum nótum.
- 400 g rabarbari, niðurskorinn
- jarðarber, handfylli
- 50 g döðlur, saxaðar
- 1 dl agavesíróp
- smá kanill
Allt látið sjóða saman í potti og malla í um 30 mínútur, eða þar til hæfilega þykkt. Passið að hræra vel í á meðan. Mér finnst gott að finna svolítið fyrir rabarbarabitunum.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.